Dagurinn byrjaði ekki vel í dag. Eða reyndar byrjaði hann á því að ég fékk skemmtilegt sms þar sem okkur Heiðari Mar var boðið í heimsókn. En sms-ið kom kl. 7:45 og þá fyrst vaknaði ég, allt allt of seint. Og Helgi Gnýr vinnur nú engin verðlaun í því að vera fljótur, sérstaklega ekki á morgnana þannig að hann kom tæpum hálftíma of seint í skólann. Valdimar fór með hann og svo þegar hann kom heim þá var ég búin að taka til þvott til að setja í vél. Það er nú ekki í frásögur færandi, nema hvað að þegar hann nú ætlaði að fara að skella þvottinum yfir í þurrkarann þá var búið að læsa þvottinn okkar inni í þvottahúsi. Við höfðum alveg gleymt að hugsa um hvort e-r hafði pantað þvottahúsið, ég kíkti bara e-n tíman í gær og þá var allt laust. Það hafði sem sagt verið pantað eftir það. Nújæja svo fer ég niður og þá er búið að færa þvottinn yfir í frjálsa herbergið og ég sé hver á þvottahúsið og fór svo og baðst auðmjúk afsökunar.
Svona hlutir stressa mig upp og það gekk ekki vel að mjólka mig, var lengi að mjólka lítið. Svo var ég nú loksins að drífa mig út í heimsóknina, allt of seint náttúrulega og þá uppgötvaði ég að það vantaði alveg loft í eitt dekkið á barnavagninum. Þannig að það kallaði á eina bensínstöðvarferð áður en ég komst á leiðarenda.
Svo var þetta nú allt upp á við eftir það. Spjölluðum í þrjá tíma án þess að fatta hvað tímanum liði. Og Heiðar Mar kenndi litlu Ellen að skríða þannig að þetta var afkastamikil heimsókn.
Reyndar hafði Valdimar hugsað sér að fara til Dogans í dag í klippingu en þorði það ekki eftir svona slæma byrjun á deginum. Spurning hvort hann skellir sér á morgun eða hinn. Ég hins vegar á pantaðan tíma hjá Sigrúnu og mánudaginn og hlakka mikið til. Það veitir sko ekki af að flikka upp á hausinn á mér. Ég er bara næstum því með móral að koma svona til hennar.
Í gær kom vinur HG í heimsókn. Þér léku sér hér í fimm tíma og gekk það bara vel. Þeir voru nú orðnir pínu þreyttir á hvorum öðrum undir það síðasta en þetta var ekkert mál fyrir okkur allan þennan tíma. Þegar vinurinn úr næsta stigagangi kom í heimsókn langaði mann mest að fara að berja hausnum í vegginn eftir hálftíma. Nú er hann fluttur og við eldra fólkið á heimilinu söknum hans ekkert rosalega og ég held að HG sakni hans heldur ekkert mikið.
Á morgun ætla ég í langan hjólatúr niður til ræðismannsins að fá ferðapappíra fyrir Heiðar Mar. Ekki viljum við nú lenda í vandræðum með að komast með drenginn úr landi. Svo sækjum við um passa fyrir hann á Íslandi og ég krossa fingur að það gangi vel fyrir sig og verði svo ekkert vesen með póstinn og svoleiðis. Þetta þarf nefnilega að ganga ansi smurt ef við eigum að geta sótt um passa og fengið hann áður en við förum aftur hingað út.