Slæmi dagurinn

desember 16, 2008

Dagurinn byrjaði ekki vel í dag. Eða reyndar byrjaði hann á því að ég fékk skemmtilegt sms þar sem okkur Heiðari Mar var boðið í heimsókn. En sms-ið kom kl. 7:45 og þá fyrst vaknaði ég, allt allt of seint. Og Helgi Gnýr vinnur nú engin verðlaun í því að vera fljótur, sérstaklega ekki á morgnana þannig að hann kom tæpum hálftíma of seint í skólann. Valdimar fór með hann og svo þegar hann kom heim þá var ég búin að taka til þvott til að setja í vél. Það er nú ekki í frásögur færandi, nema hvað að þegar hann nú ætlaði að fara að skella þvottinum yfir í þurrkarann þá var búið að læsa þvottinn okkar inni í þvottahúsi. Við höfðum alveg gleymt að hugsa um hvort e-r hafði pantað þvottahúsið, ég kíkti bara e-n tíman í gær og þá var allt laust. Það hafði sem sagt verið pantað eftir það. Nújæja svo fer ég niður og þá er búið að færa þvottinn yfir í frjálsa herbergið og ég sé hver á þvottahúsið og fór svo og baðst auðmjúk afsökunar.

Svona hlutir stressa mig upp og það gekk ekki vel að mjólka mig, var lengi að mjólka lítið. Svo var ég nú loksins að drífa mig út í heimsóknina, allt of seint náttúrulega og þá uppgötvaði ég að það vantaði alveg loft í eitt dekkið á barnavagninum. Þannig að það kallaði á eina bensínstöðvarferð áður en ég komst á leiðarenda.

Svo var þetta nú allt upp á við eftir það. Spjölluðum í þrjá tíma án þess að fatta hvað tímanum liði. Og Heiðar Mar kenndi litlu Ellen að skríða þannig að þetta var afkastamikil heimsókn.

Reyndar hafði Valdimar hugsað sér að fara til Dogans í dag í klippingu en þorði það ekki eftir svona slæma byrjun á deginum. Spurning hvort hann skellir sér á morgun eða hinn. Ég hins vegar á pantaðan tíma hjá Sigrúnu og mánudaginn og hlakka mikið til. Það veitir sko ekki af að flikka upp á hausinn á mér. Ég er bara næstum því með móral að koma svona til hennar.

Í gær kom vinur HG í heimsókn. Þér léku sér hér í fimm tíma og gekk það bara vel. Þeir voru nú orðnir pínu þreyttir á hvorum öðrum undir það síðasta en þetta var ekkert mál fyrir okkur allan þennan tíma. Þegar vinurinn úr næsta stigagangi kom í heimsókn langaði mann mest að fara að berja hausnum í vegginn eftir hálftíma. Nú er hann fluttur og við eldra fólkið á heimilinu söknum hans ekkert rosalega og ég held að HG sakni hans heldur ekkert mikið.

Á morgun ætla ég í langan hjólatúr niður til ræðismannsins að fá ferðapappíra fyrir Heiðar Mar. Ekki viljum við nú lenda í vandræðum með að komast með drenginn úr landi. Svo sækjum við um passa fyrir hann á Íslandi og ég krossa fingur að það gangi vel fyrir sig og verði svo ekkert vesen með póstinn og svoleiðis. Þetta þarf nefnilega að ganga ansi smurt ef við eigum að geta sótt um passa og fengið hann áður en við förum aftur hingað út.

Jóla

desember 13, 2008

Það líður óðum að því að við förum að fara til Íslands í jólafríið og ég hlakka svooo til. HG verður í skólanum út vikuna en Valdimar, hann kom heim í gær um fjögur, þá kominn í jólafrí. Mér finnst það alveg yndislegt að hafa hann heima. Það getur samt vel verið að hann skjótist í að hjálpa til við konfektgerð hjá súkkulaðifólkinu, en þá er hann alltaf búinn seinni partinn þannig að hann verður alltaf heima á kvöldin.

Síðasta sunnudag fengum við einmitt súkkulaðifólkið í brunch til okkar + eplaskífur og glögg á eftir. Það var mjög fínt. Dagana á undan var ég búin að baka/undirbúa bakstur (brauð, amerískar pönnukökur, muffins og eplaskífur) og svo rúllaði Valdimar þessu öllu upp um morguninn. Þetta var mjög fínt. Svo gengum við á jólamarkaðinn í HC Andersen hverfinu á eftir. Um kvöldið var svo aðventu „hygge“ hjá okkur, eplaskífur og kakó. Og glöggið maður. Ég vissi ekki að mér þætti glögg svona gott! Þvílíkt nammi.

Og fyrst ég var ennþá með eplaskífujárnið í láni bakaði ég eplaskífur sem ég tók með mér í mömmuhópinn í gær og skilaði svo járninu. Eigum einn eplaskífuskammt eftir fyrir morgundaginn. Held ég fjárfesti í járni fyrir næstu jól. Þær eru ekkert smá góðar svona heimagerðar.

Við Valdimar fórum í bæinn í vikunni og keyptum nokkrar jólagjafir. Við ætlum helst að klára sem mest áður en við komum til Íslands. Það er alveg glatað að vera að redda öllu í stressi á síðustu stundu.

Heiðar Mar varð 6 mánaða í gær og eyddi deginum ekki í neina vitleysu. Æfði sig mikið í gær og eftir baðið í gærkvöldi var hann svo bara búin að ná þessu, fór bara að skríða.

Svo held ég að ég hafi ekki verið búin að segja frá því að HG væri með fyrstu lausu tönnina sína. Það er reyndar mjög langt síðan ég tók eftir því, svona 5-6 vikur.  Á svipuðum tíma var lesturinn líka að smella hjá honum, hann fór að tengja vel stafina og lesa orð og stuttar setningar. Hann fékk líka voða fína lestrarbók í afmælisgjöf frá frændsystkynum sínum sem hann les stundum í. Þetta er gömul lestrarbók sem ég er viss um að ég las í sjálf á sínum tíma.

Í dag eru þeir feðgar svo búnir að baka piparkökur og piparkökuhús. Þeir eru búinir að standa í þessu í ca 4 tíma sem mér finnst bara ansi gott úthald hjá HG. Svo er loftkökudeigið tilbúið í ísskápnum. Afi kallaði þessar kökur reyndar alltaf Þingeyinga, aðallega til að stríða ömmu held ég.

Jólamarkaðirnir

desember 3, 2008

Varð nú aldeilis vongóð eftir kvöldmatinn. HM hafði borðað soldið af graut og sofnaði upp úr átta. Ég sá fram á ljúft rólegheita kvöld. En neinei þá var þetta bara smá fegurðarblundur hjá honum svo hann gæti vakað með okkur leeengi.

Jólamarkaðurinn í skólanum hjá HG tókst bara vel og hann skemmti sér þar við að  ganga milli bása og kaupa sér hitt og þetta smáræði sem kostaði oftast 5 krónur. Svo undir lokin gerði hann algjör reifarakaup. Menn voru komnir í prúttgírinn og hann sá þarna ægilega fínt málverk og fékk það á 10 krónur. Svo sáum við að vinur okkar hann Marinó hafði gert það. Erum að hugsa um að láta restina af verðinu ganga bara beint til hans:) En mikið djöfull var nú kalt þarna. Það voru ca 3 gráður og rigning, þannig að maður var nú hálf skjálfandi eftir að hafa staðið þarna úti í nokkra tíma og undir það síðasta að passa bás á vegum bekkjarins. Brrrr. Eins og ég hef áður sagt, það þarf svo lítinn kulda til þess að það verði kalt í Danmörku.

Á sunnudaginn röltum við svo í gamla bæinn á HC Andersen markaðinn. Mér finnst hann alltaf jafn fínn og notaleg stemning þar. Það er sérstaklega einn bás í uppáhaldi þar hjá mér með allskonar fínu heimagerðu jólaskrauti, mikið með jólalegum músum, stórum og smáum í alls konar aðstæðum. Ef Valdimar sleppir mér lausri þangað næstu helgi er aldrei að vita nema ég missi mig aðeins þar.

Í gær (mánudag) var svo haldið upp á afmæli nóvemberafmælisbarnanna á skóladagheimilinu þannig að ég bakaði skúffuköku fyrripartinn á sunnudaginn. Svo eftir kvöldmatinn var komið að eplaskífutilrauninni. Hún gekk nú frekar brösulega til að byrja með. Ég bakaði fyrst þrjá umganga fyrir okkur og þetta leit allt frekar illa út, en ég bauð þeim feðgum nú samt upp á þetta eftir matinn með kakói og kveiktum á fyrsta aðventukertinu. Þetta féll svona líka vel í kramið. Harðasti gagnrýnandinn sagði að þetta væru „heimsins bestu eplaskífur“. Ég reikna með að ég fái ekki stærra hrós á ævinni þannig að ég ætla að halda soldið vel í þetta og geyma inni í mér.  En svo þegar var nú komin meiri ró á mannskapinn, HG sofnaður og svona, þá bakaði ég úr restinni af deiginu og þá fóru þær nú að taka á sig lögulegri mynd og voru undir lokin orðnar rosalega fínar. Ætla pottþétt að fjárfesta í minni eigin pönnu og baka og baka og baka.

Eins og Tinna vinkona mín hefur bent á t.d. hér og hér eru til svokallaðir náttúrulegir brandarar. Náttúrulegan brandara dagsins er að finna hér.

Jæja, ætla að plata Valdimar til að horfa á Dagvaktarþátt fyrir svefninn. Þvílík snilld sem þessir þættir eru!

Góður er grauturinn gæskan

nóvember 28, 2008

… jah, eða gæskurinn. Ég (við) gafst  upp í gær (eftir skelfilegar nætur í þessari viku) og prófaði að gefa Heiðari Mar graut í fyrsta skipti. Það gekk nú svona og svona. Honum fannst hann nú ekki vondur (Heimalagaður hirsigrautur með brjóstamjólk og kókosolíu. Girnilegt?) en hann átti í svolitlum erfiðleikum með að hafa hann í munninum og ná að kyngja. En ég held nú samt að e-ð hafi farið niður. Svo reyndi ég aftur í kvöld og lögunin á grautnum tókst aðeins betur og ég held að hann hafi náð aðeins meiru niður. Ég bíð bara spennt eftir að hann verði svolítið flinkur í þessu og verður vonandi duglegur að borða. Það er ekki gaman að gefa barni að borða sem er ekki duglegt að borða, ég veit allt um það.

Ég fór í mødregruppe í dag. Það var bara fínt og að lokum fékk ég lánað eplaskífujárn. Ég hef nefnilega í huga að prófa að baka sjálf eplaskífur, og þá með eplaskífum í deiginu. Ég er soldið spennt að sjá útkomuna því ég ímynda mér að það sé mjög flókið að steikja þær. Ætla að æfa mig á morgun eða sunnudag og ef vel tekst til og þetta er hæfilega auðvelt þá er ég búin að lofa að taka með hjemmelavet í næsta skipti þegar við hittumst. Þá er planið að hafa eplaskífur og glögg.

Á morgun er skóli hjá Helga Gný. Þau eru með bás á jólamarkaði í skólanum og hann er mjög spenntur. Hann á að mæta kl. 9 en hann er ennþá vakandi núna kl. 10:30. Fróðlegt að vita hvernig skapið verður í fyrramálið. Svo er HC Andersen jólamarkaðurinn líka  um helgina í gamla hverfinu. Aldrei að vita nema mér takist að þræla fjölskyldunni þangað. Mér finnst alveg nauðsynlegt að kíkja aðeins a.m.k. Svo skelli ég í aðventukrans um helgina og svo verða Guðrún Á Símonar og Guðmundur Jónsson tekin fram, Svanhildur Jakobs og Hvít er borg og bær, uppáhalds jólaplöturnar mínar. Sem sagt bara hygge framundan. Yndislegt.

Þreytta konan

nóvember 22, 2008

Það er alltaf erfiðara og erfiðara að koma sér til að skrifa eftir því sem lengri tími líður.

Svefnvenjur yngsta fjölskyldumeðlimsins eru ennþá soldið skrýtnar, vaknar (of) oft á nóttunni að mínu mati og hefur farið seinna að sofa á kvöldin. Og eftir því sem hann fer seinna að sofa fer ég enn seinna að sofa því ég verð nauðsynlega að fá smá tíma fyrir mig sjálfa á kvöldin. Þannig að ég er svona frekar þreytt þessa dagana. Á þriðjudaginn fór ég að hitta leikfimistelpurnar og tók strætó. Á leiðinni þangað var ég vel vakandi, enda standandi við vagninn og með augun opin enda stressuð yfir að  stíga ekki út á réttum stað. Á leiðinni til baka var ég öllu afslappaðri. Var hreinlega að sofna á leiðinni. Soldið skrýtið því ég var standandi, jah ef standandi skildi kalla. Nokkrum sinnum var ég nefnilega að missa fæturna undan mér og vaknaði nú við það. Valdimari fannst þetta nú ansi rónalegt og er búin að vera að reyna að reka mig í rúmið undnafarið með ekkert sérstaklega góðum árangri.

Síðasta vika var auðvitað afmælisvika hjá Helga Gný. Á afmælisdaginn vaknaði hann eldsnemma, vöktum hann 6:15 svo hann gæti opnað pakka áður en hann fór í skólann. Hann fékk auðvitað margt fallegt og var voða glaður. Við gáfum honum galdradót sem hann var búin að tala lengi um að hann langaði í. Svo fékk hann meðal annars nokkrar spennandi bækur, málningardót, spil, pening og svona efri part líkama sem hægt er að taka líffærin úr, eins og var til í líffræðistofunum í gamla daga (kannski ennþá).  Svo vil ég auðvitað þakka þeim sérstaklega fyrir sem sendu nammi með afmælispökkunum (Við foreldrarnir ákváðum að aðstoða við að vinna á sælgætinu). Alltaf hressandi að fá íslenskt nammi – og pólskt auðvitað!

Á laugardaginn var svo haldin afmælisveisla. Strákarnir í bekknum komu og voru frá 1-3. Það var gríðarlegt fjör svo ekki sé meira sagt. Klukkan var reyndar ekki meira en korter yfir eitt þegar ég leit fyrst klukkuna. Öskur, læti og soldil slagsmál en þeir skemmtu sér nú flestir vel, utan einn þeirra sem notaði einn og hálfan tíma til að vera í fílu eftir slagsmál. En hann kom svo aftur að leika svo það lagaðist nú. Þetta var örugglega ekki eins slæmt eins og það leit út fyrir að vera. Við erum bara svo óvön svona látum og þeir voru nú bara að leika sér, bara á soldið hávaðasaman hátt. En Helgi Gnýr var ánægður með þetta þannig að þá erum við sátt. Svo þegar strákarnir voru farnir komu Þórey og fjölsk og þrír vinir hans af leikskólanum og einn þeirra með fjölskylduna með sér, þau íslensk og systir hans er líka með HG í bekk. Það varð allt sem sagt rólegra þarna seinni partinn og notalegt fyrir okkur að fá soldið fullorðið fólk að tala við eftir geðveikina fyrri partinn.

Á mánudaginn fékk HG svo aðra rönd í beltið sitt í karate. Hann var voðalega glaður og stoltur. Hann nálgast því óðum næsta belti. Ég myndi reikna með því kannski í mars, apríl. Veit ekki alveg hvað þetta getur gengið hratt.

Sundhedsplejersken kom á fimmtudaginn til að mæla og vigta. Heiðar Mar er orðinn 71 cm og 7,1 kg. Henni þykir hann of léttur miðað við lengd þannig að hún er svona búin að vera að orða við mig að byrja að gefa honum graut, gerði það reyndar líka eftir síðustu vigtun. Ég er ekkert svo æst í rjúka í það alveg strax enda er hann alveg sáttur og glaður strákur og lítur ekkert út fyrir að vera að deyja úr hor. Svo finnst mér ekkert skipta neinu máli hvort ég byrja að gefa honum núna strax eða eftir ca 15 daga eða hvað það nú verður. Svo er nú ekki eins og hann liggi bara kjur á gólfinu og bæti á sig öllu sem fer inn fyrir  varir hans heldur er hann algjörlega á fullu þegar hann er vakandi og brennir þ.a.l. miklu.

Þetta árið erum við óvenju snemma í því að jólaskreyta. Hér voru öll ljós komin upp fyrir nokkrum dögum síðan og flest allt skrautið fyrir utan það sem fer á jólatréð. Okkur til varnar þá skreyttum við ekkert í fyrra heldur bjuggum í flutningadrasli og svo er ótrúlega stutt þangað til við förum til Íslands í jólafrí þannig að það er bara gaman að hafa soldið jólalegt hjá okkur áður en við förum.

Af mér sjálfri er það að frétta að ég hef aldrei á ævinni haft jafn mikla löngun í bjór eins og undanfarnar ca þrjár vikur. Ég hef nú alveg fullkomlega stjórn á þessu, fæ mér einstaka sinnum sopa hjá Valdimari og stundum nokkra í einu:) Skil þetta bara ekki. Ég hef aldrei verið neitt sérstaklega gefin fyrir áfengi nema í þeim eina tilgangi að verða full af því. Þannig að þetta er alveg nýtt fyrir mér.

Tiltölulega nýjar tölur

nóvember 8, 2008

segja Heiðar Mar vera orðinn 68 cm og 6850 g, var vigtaður 29. okt. Hann er því mjög svipaður Helga Gný að þyngd en aðeins lengri. Hann er ekki með neitt auka utan á sér enda mjög duglegur að hreyfa sig, fer endalaust upp á hnén að rugga sér, veit reyndar ekkert hvað hann á svo að gera við það, og einstaka sinnum hefur hann farið upp á tærnar. Ég ætla nú ekki að spá neinu um það hvenær hann sest, en þori að segja að það mun gerast bráðum.

Hérna í Danmörku hefur verið haldið upp á Halloween síðan 1990 og e-ð og við tökum þeirri hefð bara fagnandi. Höfum skorið út grasker síðustu tvö ár en núna var gengið skrefi lengra og keyptur búningur á HG. Þau máttu koma í búningi í skólann og svo var Halloween partí í karateinu. Hann valdi sér beinagrindarbúning, en það væri nú synd að segja að hann væri e-ð óhuggulegur. Allt í kringum hrekkjavökunan á mjög vel við HG því hann er mjög hrifinn af öllu sem er ógeðslegt og óhuggulegt.

Síðasta sunnudag fór ég í bíó með Helga Gný. Það er í fyrsta skipti sem við gerum e-ð ein saman síðan HM fæddist. Við fórum á Far til fire og skemmtum okkur vel á henni. Mikið svona detta á rassinn húmor en ég þarf ekkert mikið flóknara heldur til að hafa ofan af fyrir mér.

Í næstu viku er svo afmæli, HG verður 6 ára þann 12. og þann sama dag verður Heiðar Mar 5 mánaða. Við ætlum þó ekki að halda upp á afmælið fyrr en á laugardeginum. Á mánudaginn er foreldrafundur og á þriðjudag 5 mánaða skoðun. Það verða því nóg verkefni í komandi viku.

Stolti…

nóvember 7, 2008

Norðfirðingurinn kom sterkur upp í mér við lestur þessarar fréttar. Svo eru þetta líka flottar myndir hjá þeim strákunum.

Held

nóvember 5, 2008

þetta sé það fyndnasta sem ég hef séð lengi. Varla getur þetta talist fölsun, engin var frummyndin fyrir. Þetta hlýtur að falla frekar undir nýsköpun og sjálfsbjargarviðleitni. Varla verður fólki refsað fyrir slíkt.

Klukk

nóvember 5, 2008

Eygló klukkaði mig í fyrradag svo það er eins gott fyrir mig að svara því núna ef það á að gerast yfir höfuð.

1. Fjögur störf sem ég hef unnið um ævina:
– snyrting og pökkun og önnur tilfallandi störf í Frystihúsi SVN
– Bréfberi
– Starfsmaður á geðdeild
– PISAkóðari hjá Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála

2. Fjórar íslenskar bíómyndir sem ég held upp á:
– Nýtt líf
– Dalalíf
– Óðal feðranna
– Tár úr steini

3. Fjórir staðir sem ég hef búið á:
– Mýrargata 3, 740
– Kleppsvegur 54, 104
– Hagamelur 22, 107
– Falen 39, 5000 DK

4. Fjórir staðir sem ég hef heimsótt í fríum:
– Norðfjörður
– Snæfellsnes
– Ítalía (Mílanó, Brescia, Feneyjar, Veróna)
– Suður Jótland

5. Fjórir sjónvarpsþættir sem mér líkar:
– Fastir liðir eins og venjulega
– ER
– Columbo
– Forbrydelsen

6. Fjórar síður sem ég skoða daglega:
– RÚV
– Mbl
– Visir
– Eyjan

7. Fernt sem ég held upp á matarkyns:
– Soðin ýsa
– Steikt lifur
– Kálbögglar
– Lamba/nautalundir/fillet með bernaise

8. Fjórar bækur sem ég hef oft lesið:
Hin síðar ár læt ég almennt nægja að lesa bækur einu sinni. En…
– Prinsessan á bauninni
– Elías í Kanada
– Sesselja Agnes, undarleg saga
– Skólabækur og bækurnar hans Helga Gnýs

9. Fjórir staðir sem ég vildi helst vilja vera á núna:
Mér líður alveg ágætlega á þeim stað sem ég er núna en…
– Í heimsókn hjá ömmu og afa í Víðimýri 10 að spila, spjalla og fræðast um frændfólk
– Að horfa á Friends með Dagbjörtu
– Á 10 dropum með MR vinkonum
– Í Viðfirði með öllum vinunum að austan að borða e-n góðan grillmat, veiða, vaða ganga um og tendra bál í fjörunni (auðvitað ekki á æðarvarpstíma!)

10. Fjórir bloggarar sem ég klukka:
Steinunn
Tinna
Auður
Guðrún

Áfall

október 27, 2008

Ég er hrædd um að Valdimar eigi eftir að verða fyrir miklum vonbrigðum ef hann fær ekki Prins Póló um jólin.

Og má ég nú bara benda á að það eru minna en tveir mánuðir þar til við komum í jólafríið. Ég hlakka alveg hrikalega mikið til.

Í gær var skift yfir í vetrartíma þannig að nú erum við bara einum tíma á undan Íslandi. Mér finnst þetta alltaf þægilegri tími. Í morgun var meira að segja næstum albjart þegar ég vaknaði og Helgi Gnýr vaknaði alveg sjálfur kl. 7 sem hefur held ég gerst einu sinni síðan hann byrjaði í skólanum. En að sama skapi er alveg svarta myrkur kl. 5 á daginn sem ég er ekkert sérstaklega hrifin af, en það er samt e-ð notalegt við myrkrið. Svo verður allt fallegra þegar jólaljósin fara að koma upp, sem eru þó af mjög skornum skammti hér í Odense.

Helgi Gnýr fór í heimsókn til vinkonu sinnar í gær sem er dóttir súkkúlaðifólksins sem Valdimar hefur verið að hjálpa og við fórum í mat til um daginn. Honum fannst rosalega gaman. Var hjá þeim í líklega 3-4 tíma áður en hann fór að tala um að fara aftur heim.

Valdimar fór á fund í vinnuna í morgun og var svo plataður í að vinna fram yfir hádegi. Þannig að frídagurinn hans er frekar skemmdur í dag. Svo ætla þeir feðgar að fara saman í karateið í dag en við Heiðar Mar ætlum að vera mest heima. Hann er farin að sofa afleitlega á nóttunni, sefur mjög stutt í einu og svo er erfitt að leggja hann frá sér aftur í rúmið þannig að hann er farinn að vera góðann hluta næturinnar uppí hjá okkur sem er alveg afleitt. En svo getur hann tekið þriggja tíma lúr á daginn. Ég er ekki alveg nógu sátt við þetta því þá neyðist ég til að sofa svo mikið á daginn ef ég á ekki að missa vitið.

Jæja, er farin að fá mér rúgbrauðið mitt. Eins og ég var nú orðin pirruð á öllum rúgbrauðsfyrirlestrunum sem við höfum fengið hérna síðan við fluttum þá er það ég sem er farin að halda þessa „hollusta rúgbrauðs“ fyrirlestra. Ég er bara farin að elska danska rúgbrauðið. En ég geri mér samt grein fyrir því að aðrar þjóðir hafa lifað af þrátt fyrir fjarveru rúgbrauðs.