Archive for apríl, 2009

Engar stórfréttir

apríl 29, 2009

Það eru engar stórfréttir á staðnum. Við erum búin að venjast því að vera ein aftur eftir bröttför mæðgnanna um daginn. Það hefur verið yndislegt vorveður undanfarnar vikur. Bara einn rigningardagur og þá var ég akkúrat kölluð út í vinnu. Er sem sagt á skrá hjá afleysingaskrifstofu sem dekkar forföll í heimaþjónustu og á sjúkrahúsum. Það er bara fínt og hentar mér vel núna því þá getum við tekið langt sumarfrí á Íslandi í sumar. En já, rigningardagurinn. Ég gleymdi sem sagt regngallanum og var hundblaut hjólandi á milli hverfa langt í burtu. En mikið var nú gott að koma heim. Það er annars ekkert brjálað að gera hjá mér í þessari vinnu en fæ vonandi meira að gera þegar ég er búin að taka námskeiðið þeirra núna frá 1.-9. maí.

Skólinn hefur alveg setið á hakanum. Ég fresta því að klára hann þar til ég hef orku í það. Við mæðgin erum enn í því að vakna endalaust á nóttunni og ég bara er hálf manneskja meðan á því stendur. Þetta er auðvitað bara sjálfskaparvíti. En ég er ekki viss um að ég þrauki árið í brjóstagjöfinni. Heiðar Mar er mjög skynsamur ungur maður en ég held að hann eigi samt ekki eftir að skilja það (héðan í frá, orðinn 10 mánaða) að það megi bara drekka á dagin en ekki á nóttunni. Þannig að ég reikna með að skera bara alveg á þetta þegar þar að kemur og ég treysti mér til. Mér finnst það samt alveg agalegt að ætla að guggna svona á brjóstagjöfinni eins mikill brjóstagjafafasisti og ég er nú. Brjóstagjöfinn er bara að taka miklu meira á mig núna en með Helga Gný, en hann var ég með á brjósti í 22 mánuði og fannst það eiginlega ekkert mál þá.

Merkilegt nokk þá hef ég haldið mig við að fara út að hlaupa annan hvern dag. Meira að segja langaði mig út í gær líka en ákvað samt að missa mig nú ekki alveg. Það getur samt vel verið að ég reyni bara að fara út alla þá morgna sem ég kemst. Ætla að melta þetta aðeins. Svo skellti Valdimar sér út í morgun líka. Sjáum hvað verður úr þessu.

Á föstudaginn voru núll bekkirnir með upplestur í skólanum. Þau voru búin að vera með þema um tröll og voru öll búin að skrifa litla tröllasögu og svo lásu þau upp hvert af öðru. Helgi Gnýr stóð sig eins og hetja. Las hátt og skýrt (best, auðvitað, að mati foreldranna) og þurfti enga hjálp sem mörg börnin annars þurftu (sem er auðvitað líka eðlilegt fyrir svona smáfólk). Hann fékk líka svo góða umsögn í foreldraviðtali fyrir mánuði síðan. Hann stendur sig mjög vel í skólanum í öllu þessu faglega og þetta félagslega er allt að smella líka hjá honum. Hann er einn af þeim fyrstu í bekknum að læra að lesa sem mér finnst bara mjög flott því hann er auðvitað að basla með tvö tungumál og er fæddur seint á árinu.

Heiðar Mar er algjör gaur. Rífst bara á móti þegar honum er bannað e-ð og veit alveg nákvæmlega hvað hann vill. Hann er núna í því að æfa sig að taka skref og tekur núna iðulega 3-4 skref í einu. Svo segir hann bara nei stanslaust og er að myndast við að segja mamma og jafnvel pabbi við viðeigandi aðstæður. Hann er búinn að babbla mammammammamma í marga mánuði en núna finnst mér þetta vera soldið almennilega markvisst hjá honum. Hann verður því væntanlega orðinn ansi vel hreyfanlegur þegar við komum heim í sumarfrí.

Já og kosningarnar… Ég er auðvitað sátt. Svo er bara að sjá hvað verður úr þessu hjá þeim.

Fótur fluttur

apríl 18, 2009

Ungi maðurinn, sá rúmlega 10 mánaða, hefur verið að æfa sig undanfarnar tvær vikur í því að standa án stuðnings og áðan (ég myndi ekki ganga svo langt að segja að hann hafi tekið skref) flutti hann fótinn.  …hálftíma síðar: Hann gerði þetta tvisvar aftur.

Á sama tíma hefur sá eldri verið að æfa sig í nýja Nintendo tölvuspilinu sínu. Mér finnst hann bara nokkuð klár í þessu miðað við ákaflega litla reynslu af tölvuleikjum. Svo finnst mér þetta heldur ekkert leiðinlegt. Sjálf átti ég bara Donkey Kong JR þannig að þetta er nú soldið stórt stökk fyrir mig.

Ég fór í morgun með Dagbjörtu í stöðvaþjálfun hjá vinkonu hennar sem er með tíma aðra hverja viku á sjúkrahúsinu. Það var rosalegt! En samt gaman. Er líka búin að fara að hlaupa tvisvar í vikunni með Dagbjörtu og gera æfingar. Væri bara mest til í að hafa hana sem einkaþjálfara. Ég hef akkúrat engan sjálfsaga til að drífa mig út sjálf.

Svo er bara að njóta síðasta kvöldsins með Dagbjörtu í bili. Helgi Gnýr notar síðasta tækifærið vel og hún fær að bursta og lesa fyrir svefninn. Kannski við hin ættum að gera það bara líka, Dagbjört er náttúrulega þekkt fyrir góða tannhirðu:)

Yndislegt

apríl 15, 2009

vorveður hérna þessa dagana og mér sýnist það bara ætla að halda áfram. Mamma fór í gær þannig að HG þarf að bíða lengi eftir annari sögu af „litlu músinni“. HG og Dagbjört eru að spóka sig í dýragarðinum núna og við hin höngum heima. Ég er e-ð að reyna að taka til en það gengur e-ð hægt þegar maður missir sig í tölvunni stanslaust. Það er bara alveg magnað hvað það hleðst stanslaust upp alls konar pappír og dótarí hjá okkur sem ekki er hægt að henda heldur þarf að finna e-n góðan stað fyrir. Vona að ég sé ekki ein með þetta vandamál.

Gleðilega páska

apríl 12, 2009

Við höfum það mjög huggulegt þessa dagana. Mamma er í heimsókn og hefur verið í viku og Dagbjört síðan á fimmtudagskvöld. Það er bara yndislegt að hafa þær.

Í dag prófuðum við þær sem barnapíur og fórum í bíó með Helga Gný á Monsters vs Aliens. Við HG vorum að fara í fyrsta skipti á mynd í þrívídd og við urðum ekki fyrir vonbrigðum. Það var líka gaman að geta gert e-ð með HG einum svona einu sinni. Og barnapíunum gekk vel. Heiðar Mar öskraði í nokkrar sekúndur þegar við fórum og svo var það búið. Svo verður önnur pössunaræfing tekin á morgun.

Vorið

apríl 4, 2009

Ég ætla að gerast svo djörf að segja að vorið sé komið hér í Danmörku. Það er yndislegt veður úti og ég hef þegar hjólað á peysunni (með vetrarúlpuna í körfu). Var að koma úr vinnunni af 7-10 vakt (reyndar var ég lengur af óviðráðanlegum orsökum) og hér á bæ erum við að fara að blása úr eggjum.