Archive for desember, 2008

Slæmi dagurinn

desember 16, 2008

Dagurinn byrjaði ekki vel í dag. Eða reyndar byrjaði hann á því að ég fékk skemmtilegt sms þar sem okkur Heiðari Mar var boðið í heimsókn. En sms-ið kom kl. 7:45 og þá fyrst vaknaði ég, allt allt of seint. Og Helgi Gnýr vinnur nú engin verðlaun í því að vera fljótur, sérstaklega ekki á morgnana þannig að hann kom tæpum hálftíma of seint í skólann. Valdimar fór með hann og svo þegar hann kom heim þá var ég búin að taka til þvott til að setja í vél. Það er nú ekki í frásögur færandi, nema hvað að þegar hann nú ætlaði að fara að skella þvottinum yfir í þurrkarann þá var búið að læsa þvottinn okkar inni í þvottahúsi. Við höfðum alveg gleymt að hugsa um hvort e-r hafði pantað þvottahúsið, ég kíkti bara e-n tíman í gær og þá var allt laust. Það hafði sem sagt verið pantað eftir það. Nújæja svo fer ég niður og þá er búið að færa þvottinn yfir í frjálsa herbergið og ég sé hver á þvottahúsið og fór svo og baðst auðmjúk afsökunar.

Svona hlutir stressa mig upp og það gekk ekki vel að mjólka mig, var lengi að mjólka lítið. Svo var ég nú loksins að drífa mig út í heimsóknina, allt of seint náttúrulega og þá uppgötvaði ég að það vantaði alveg loft í eitt dekkið á barnavagninum. Þannig að það kallaði á eina bensínstöðvarferð áður en ég komst á leiðarenda.

Svo var þetta nú allt upp á við eftir það. Spjölluðum í þrjá tíma án þess að fatta hvað tímanum liði. Og Heiðar Mar kenndi litlu Ellen að skríða þannig að þetta var afkastamikil heimsókn.

Reyndar hafði Valdimar hugsað sér að fara til Dogans í dag í klippingu en þorði það ekki eftir svona slæma byrjun á deginum. Spurning hvort hann skellir sér á morgun eða hinn. Ég hins vegar á pantaðan tíma hjá Sigrúnu og mánudaginn og hlakka mikið til. Það veitir sko ekki af að flikka upp á hausinn á mér. Ég er bara næstum því með móral að koma svona til hennar.

Í gær kom vinur HG í heimsókn. Þér léku sér hér í fimm tíma og gekk það bara vel. Þeir voru nú orðnir pínu þreyttir á hvorum öðrum undir það síðasta en þetta var ekkert mál fyrir okkur allan þennan tíma. Þegar vinurinn úr næsta stigagangi kom í heimsókn langaði mann mest að fara að berja hausnum í vegginn eftir hálftíma. Nú er hann fluttur og við eldra fólkið á heimilinu söknum hans ekkert rosalega og ég held að HG sakni hans heldur ekkert mikið.

Á morgun ætla ég í langan hjólatúr niður til ræðismannsins að fá ferðapappíra fyrir Heiðar Mar. Ekki viljum við nú lenda í vandræðum með að komast með drenginn úr landi. Svo sækjum við um passa fyrir hann á Íslandi og ég krossa fingur að það gangi vel fyrir sig og verði svo ekkert vesen með póstinn og svoleiðis. Þetta þarf nefnilega að ganga ansi smurt ef við eigum að geta sótt um passa og fengið hann áður en við förum aftur hingað út.

Jóla

desember 13, 2008

Það líður óðum að því að við förum að fara til Íslands í jólafríið og ég hlakka svooo til. HG verður í skólanum út vikuna en Valdimar, hann kom heim í gær um fjögur, þá kominn í jólafrí. Mér finnst það alveg yndislegt að hafa hann heima. Það getur samt vel verið að hann skjótist í að hjálpa til við konfektgerð hjá súkkulaðifólkinu, en þá er hann alltaf búinn seinni partinn þannig að hann verður alltaf heima á kvöldin.

Síðasta sunnudag fengum við einmitt súkkulaðifólkið í brunch til okkar + eplaskífur og glögg á eftir. Það var mjög fínt. Dagana á undan var ég búin að baka/undirbúa bakstur (brauð, amerískar pönnukökur, muffins og eplaskífur) og svo rúllaði Valdimar þessu öllu upp um morguninn. Þetta var mjög fínt. Svo gengum við á jólamarkaðinn í HC Andersen hverfinu á eftir. Um kvöldið var svo aðventu „hygge“ hjá okkur, eplaskífur og kakó. Og glöggið maður. Ég vissi ekki að mér þætti glögg svona gott! Þvílíkt nammi.

Og fyrst ég var ennþá með eplaskífujárnið í láni bakaði ég eplaskífur sem ég tók með mér í mömmuhópinn í gær og skilaði svo járninu. Eigum einn eplaskífuskammt eftir fyrir morgundaginn. Held ég fjárfesti í járni fyrir næstu jól. Þær eru ekkert smá góðar svona heimagerðar.

Við Valdimar fórum í bæinn í vikunni og keyptum nokkrar jólagjafir. Við ætlum helst að klára sem mest áður en við komum til Íslands. Það er alveg glatað að vera að redda öllu í stressi á síðustu stundu.

Heiðar Mar varð 6 mánaða í gær og eyddi deginum ekki í neina vitleysu. Æfði sig mikið í gær og eftir baðið í gærkvöldi var hann svo bara búin að ná þessu, fór bara að skríða.

Svo held ég að ég hafi ekki verið búin að segja frá því að HG væri með fyrstu lausu tönnina sína. Það er reyndar mjög langt síðan ég tók eftir því, svona 5-6 vikur.  Á svipuðum tíma var lesturinn líka að smella hjá honum, hann fór að tengja vel stafina og lesa orð og stuttar setningar. Hann fékk líka voða fína lestrarbók í afmælisgjöf frá frændsystkynum sínum sem hann les stundum í. Þetta er gömul lestrarbók sem ég er viss um að ég las í sjálf á sínum tíma.

Í dag eru þeir feðgar svo búnir að baka piparkökur og piparkökuhús. Þeir eru búinir að standa í þessu í ca 4 tíma sem mér finnst bara ansi gott úthald hjá HG. Svo er loftkökudeigið tilbúið í ísskápnum. Afi kallaði þessar kökur reyndar alltaf Þingeyinga, aðallega til að stríða ömmu held ég.

Jólamarkaðirnir

desember 3, 2008

Varð nú aldeilis vongóð eftir kvöldmatinn. HM hafði borðað soldið af graut og sofnaði upp úr átta. Ég sá fram á ljúft rólegheita kvöld. En neinei þá var þetta bara smá fegurðarblundur hjá honum svo hann gæti vakað með okkur leeengi.

Jólamarkaðurinn í skólanum hjá HG tókst bara vel og hann skemmti sér þar við að  ganga milli bása og kaupa sér hitt og þetta smáræði sem kostaði oftast 5 krónur. Svo undir lokin gerði hann algjör reifarakaup. Menn voru komnir í prúttgírinn og hann sá þarna ægilega fínt málverk og fékk það á 10 krónur. Svo sáum við að vinur okkar hann Marinó hafði gert það. Erum að hugsa um að láta restina af verðinu ganga bara beint til hans:) En mikið djöfull var nú kalt þarna. Það voru ca 3 gráður og rigning, þannig að maður var nú hálf skjálfandi eftir að hafa staðið þarna úti í nokkra tíma og undir það síðasta að passa bás á vegum bekkjarins. Brrrr. Eins og ég hef áður sagt, það þarf svo lítinn kulda til þess að það verði kalt í Danmörku.

Á sunnudaginn röltum við svo í gamla bæinn á HC Andersen markaðinn. Mér finnst hann alltaf jafn fínn og notaleg stemning þar. Það er sérstaklega einn bás í uppáhaldi þar hjá mér með allskonar fínu heimagerðu jólaskrauti, mikið með jólalegum músum, stórum og smáum í alls konar aðstæðum. Ef Valdimar sleppir mér lausri þangað næstu helgi er aldrei að vita nema ég missi mig aðeins þar.

Í gær (mánudag) var svo haldið upp á afmæli nóvemberafmælisbarnanna á skóladagheimilinu þannig að ég bakaði skúffuköku fyrripartinn á sunnudaginn. Svo eftir kvöldmatinn var komið að eplaskífutilrauninni. Hún gekk nú frekar brösulega til að byrja með. Ég bakaði fyrst þrjá umganga fyrir okkur og þetta leit allt frekar illa út, en ég bauð þeim feðgum nú samt upp á þetta eftir matinn með kakói og kveiktum á fyrsta aðventukertinu. Þetta féll svona líka vel í kramið. Harðasti gagnrýnandinn sagði að þetta væru „heimsins bestu eplaskífur“. Ég reikna með að ég fái ekki stærra hrós á ævinni þannig að ég ætla að halda soldið vel í þetta og geyma inni í mér.  En svo þegar var nú komin meiri ró á mannskapinn, HG sofnaður og svona, þá bakaði ég úr restinni af deiginu og þá fóru þær nú að taka á sig lögulegri mynd og voru undir lokin orðnar rosalega fínar. Ætla pottþétt að fjárfesta í minni eigin pönnu og baka og baka og baka.

Eins og Tinna vinkona mín hefur bent á t.d. hér og hér eru til svokallaðir náttúrulegir brandarar. Náttúrulegan brandara dagsins er að finna hér.

Jæja, ætla að plata Valdimar til að horfa á Dagvaktarþátt fyrir svefninn. Þvílík snilld sem þessir þættir eru!