Það er alltaf erfiðara og erfiðara að koma sér til að skrifa eftir því sem lengri tími líður.
Svefnvenjur yngsta fjölskyldumeðlimsins eru ennþá soldið skrýtnar, vaknar (of) oft á nóttunni að mínu mati og hefur farið seinna að sofa á kvöldin. Og eftir því sem hann fer seinna að sofa fer ég enn seinna að sofa því ég verð nauðsynlega að fá smá tíma fyrir mig sjálfa á kvöldin. Þannig að ég er svona frekar þreytt þessa dagana. Á þriðjudaginn fór ég að hitta leikfimistelpurnar og tók strætó. Á leiðinni þangað var ég vel vakandi, enda standandi við vagninn og með augun opin enda stressuð yfir að stíga ekki út á réttum stað. Á leiðinni til baka var ég öllu afslappaðri. Var hreinlega að sofna á leiðinni. Soldið skrýtið því ég var standandi, jah ef standandi skildi kalla. Nokkrum sinnum var ég nefnilega að missa fæturna undan mér og vaknaði nú við það. Valdimari fannst þetta nú ansi rónalegt og er búin að vera að reyna að reka mig í rúmið undnafarið með ekkert sérstaklega góðum árangri.
Síðasta vika var auðvitað afmælisvika hjá Helga Gný. Á afmælisdaginn vaknaði hann eldsnemma, vöktum hann 6:15 svo hann gæti opnað pakka áður en hann fór í skólann. Hann fékk auðvitað margt fallegt og var voða glaður. Við gáfum honum galdradót sem hann var búin að tala lengi um að hann langaði í. Svo fékk hann meðal annars nokkrar spennandi bækur, málningardót, spil, pening og svona efri part líkama sem hægt er að taka líffærin úr, eins og var til í líffræðistofunum í gamla daga (kannski ennþá). Svo vil ég auðvitað þakka þeim sérstaklega fyrir sem sendu nammi með afmælispökkunum (Við foreldrarnir ákváðum að aðstoða við að vinna á sælgætinu). Alltaf hressandi að fá íslenskt nammi – og pólskt auðvitað!
Á laugardaginn var svo haldin afmælisveisla. Strákarnir í bekknum komu og voru frá 1-3. Það var gríðarlegt fjör svo ekki sé meira sagt. Klukkan var reyndar ekki meira en korter yfir eitt þegar ég leit fyrst klukkuna. Öskur, læti og soldil slagsmál en þeir skemmtu sér nú flestir vel, utan einn þeirra sem notaði einn og hálfan tíma til að vera í fílu eftir slagsmál. En hann kom svo aftur að leika svo það lagaðist nú. Þetta var örugglega ekki eins slæmt eins og það leit út fyrir að vera. Við erum bara svo óvön svona látum og þeir voru nú bara að leika sér, bara á soldið hávaðasaman hátt. En Helgi Gnýr var ánægður með þetta þannig að þá erum við sátt. Svo þegar strákarnir voru farnir komu Þórey og fjölsk og þrír vinir hans af leikskólanum og einn þeirra með fjölskylduna með sér, þau íslensk og systir hans er líka með HG í bekk. Það varð allt sem sagt rólegra þarna seinni partinn og notalegt fyrir okkur að fá soldið fullorðið fólk að tala við eftir geðveikina fyrri partinn.
Á mánudaginn fékk HG svo aðra rönd í beltið sitt í karate. Hann var voðalega glaður og stoltur. Hann nálgast því óðum næsta belti. Ég myndi reikna með því kannski í mars, apríl. Veit ekki alveg hvað þetta getur gengið hratt.
Sundhedsplejersken kom á fimmtudaginn til að mæla og vigta. Heiðar Mar er orðinn 71 cm og 7,1 kg. Henni þykir hann of léttur miðað við lengd þannig að hún er svona búin að vera að orða við mig að byrja að gefa honum graut, gerði það reyndar líka eftir síðustu vigtun. Ég er ekkert svo æst í rjúka í það alveg strax enda er hann alveg sáttur og glaður strákur og lítur ekkert út fyrir að vera að deyja úr hor. Svo finnst mér ekkert skipta neinu máli hvort ég byrja að gefa honum núna strax eða eftir ca 15 daga eða hvað það nú verður. Svo er nú ekki eins og hann liggi bara kjur á gólfinu og bæti á sig öllu sem fer inn fyrir varir hans heldur er hann algjörlega á fullu þegar hann er vakandi og brennir þ.a.l. miklu.
Þetta árið erum við óvenju snemma í því að jólaskreyta. Hér voru öll ljós komin upp fyrir nokkrum dögum síðan og flest allt skrautið fyrir utan það sem fer á jólatréð. Okkur til varnar þá skreyttum við ekkert í fyrra heldur bjuggum í flutningadrasli og svo er ótrúlega stutt þangað til við förum til Íslands í jólafrí þannig að það er bara gaman að hafa soldið jólalegt hjá okkur áður en við förum.
Af mér sjálfri er það að frétta að ég hef aldrei á ævinni haft jafn mikla löngun í bjór eins og undanfarnar ca þrjár vikur. Ég hef nú alveg fullkomlega stjórn á þessu, fæ mér einstaka sinnum sopa hjá Valdimari og stundum nokkra í einu:) Skil þetta bara ekki. Ég hef aldrei verið neitt sérstaklega gefin fyrir áfengi nema í þeim eina tilgangi að verða full af því. Þannig að þetta er alveg nýtt fyrir mér.