Archive for október, 2008

Áfall

október 27, 2008

Ég er hrædd um að Valdimar eigi eftir að verða fyrir miklum vonbrigðum ef hann fær ekki Prins Póló um jólin.

Og má ég nú bara benda á að það eru minna en tveir mánuðir þar til við komum í jólafríið. Ég hlakka alveg hrikalega mikið til.

Í gær var skift yfir í vetrartíma þannig að nú erum við bara einum tíma á undan Íslandi. Mér finnst þetta alltaf þægilegri tími. Í morgun var meira að segja næstum albjart þegar ég vaknaði og Helgi Gnýr vaknaði alveg sjálfur kl. 7 sem hefur held ég gerst einu sinni síðan hann byrjaði í skólanum. En að sama skapi er alveg svarta myrkur kl. 5 á daginn sem ég er ekkert sérstaklega hrifin af, en það er samt e-ð notalegt við myrkrið. Svo verður allt fallegra þegar jólaljósin fara að koma upp, sem eru þó af mjög skornum skammti hér í Odense.

Helgi Gnýr fór í heimsókn til vinkonu sinnar í gær sem er dóttir súkkúlaðifólksins sem Valdimar hefur verið að hjálpa og við fórum í mat til um daginn. Honum fannst rosalega gaman. Var hjá þeim í líklega 3-4 tíma áður en hann fór að tala um að fara aftur heim.

Valdimar fór á fund í vinnuna í morgun og var svo plataður í að vinna fram yfir hádegi. Þannig að frídagurinn hans er frekar skemmdur í dag. Svo ætla þeir feðgar að fara saman í karateið í dag en við Heiðar Mar ætlum að vera mest heima. Hann er farin að sofa afleitlega á nóttunni, sefur mjög stutt í einu og svo er erfitt að leggja hann frá sér aftur í rúmið þannig að hann er farinn að vera góðann hluta næturinnar uppí hjá okkur sem er alveg afleitt. En svo getur hann tekið þriggja tíma lúr á daginn. Ég er ekki alveg nógu sátt við þetta því þá neyðist ég til að sofa svo mikið á daginn ef ég á ekki að missa vitið.

Jæja, er farin að fá mér rúgbrauðið mitt. Eins og ég var nú orðin pirruð á öllum rúgbrauðsfyrirlestrunum sem við höfum fengið hérna síðan við fluttum þá er það ég sem er farin að halda þessa „hollusta rúgbrauðs“ fyrirlestra. Ég er bara farin að elska danska rúgbrauðið. En ég geri mér samt grein fyrir því að aðrar þjóðir hafa lifað af þrátt fyrir fjarveru rúgbrauðs.

Að vera vitur eftirá

október 25, 2008

Ef ég heyri e-n úr ríkisstjórn, stjórnarþingmann eða bara part af valdaklíkunni undanfarin 15 ár nota þetta orðatiltæki aftur þá er ég ekki viss um að ég geti verið ábyrg gjörða minna.

En að léttara hjali. Litla fjölskyldan ætlar að skella sér út í göngutúr og koma við í súkkulaðibúðinni. Aldrei að vita nema við komum við hjá afmælisbarni miðvikudagsins líka.

Og að ekki svo léttu hjali. Við megum búast við að málið varðandi tölvuna verði útkljáð eftir u.þ.b. 6-8 mánuði. Það verður nú aldeilis ljómandi að láta tölvuna úreldast í viðgerðinni þangað til. En ég er bara ekki tilbúin að gefa þetta eftir nema fá úrskurð yfirvalda fyrst. Ætli Humac fari svo ekki bara á hausinn líka fyrst það er í eigu Íslendinga og tölvan okkar verði seld upp í kostnað og við sjáum hana aldrei aftur.

Við erum búin að fylgjast með hæfileikakeppninni í danska sjónvarpinu og í gær voru sigurvegararnir fundnir. Mér finnst þeir flottir.

Svo er hérna eitt alveg ótrúlega skemmtilegt lag sem ég er búin að vera með á heilanum síðustu vikuna. Ef mömmu minni finnst þetta ekki líka skemmtilegt þá myndi ég segja að ég þekkti hana ekki sérlega vel.

Mergurinn

október 22, 2008

Sumir gætu haldið að mér findist þetta skemmtilegt miðað hvað ég hef áður skrifað (sem ég nenni ekki að leita að) en mér finnst þetta bara ógeðslegt! Eyrnamergur er jú til þess gerður að þrífa hann burt, og já, endilega með eyrnapinnum.

Sgniikl

október 21, 2008

– þetta hinn skrifmátinn á -snigill- ef þið vissuð það ekki. Helgi Gnýr hefur verið að æfa sig mikið í að skrifa undanfarinn  mánuð. Hann skrifar alls konar vitleysu í bland við margt rétt en okkur finnst þetta svo fyndið og sætt að við erum ekkert sérstaklega dugleg að leiðrétta hann. Svo er hann líka að byrja að stauta sig fram úr orðum. Hann er ekki að læra þetta í skólanum og ekki erum við að pressa á hann þannig að hann er bara að læra þetta svona smám saman sjálfur.

Bara tveir mánuðir þangað til við komum heim um jólin. Ég hlakka svoooo til og veit að þessir tveir mánuðir verða hrikalega fljótir að líða. Helgi Gnýr er t.d. búinn að vera í skólanum í tvo mánuði fyrir haustfrí og það hefur liðið hrikalega hratt.

Haustfríið varði í 9 daga og Helgi Gnýr var í algjöru fríi þann tíma. Það eru mörg börn sem fara samt á skóladagheimilið meðan á því stendur en fyrst það er möguleiki fyrir okkur þá finnst mér að hann eigi bara að fá algjört frí frá skólanum og því sem honum fylgir. Það er líka búið að vera mjög erfitt fyrir hann að vakna í dag og í gær eftir fríið enda búin að vera soldil óregla á meðan varðandi svefntíma. Svo er líka orðið svo dimmt á morgnana þegar hann þarf að fara á fætur að honum finnst hann bara vera að vakna um miðja nótt. En það er nú samt ágætt að komast aftur í regluna sem fylgir rútínunni.

Helgi Gnýr er búinn að vera að æfa karate síðan í september og fór í sitt fyrsta „stribetest“ í gær. Hann hefur vissulega sýnt miklar framfarir síðan hann byrjaði en hann á samt mjög erfitt með að standa kyrr og heyrir ekkert rosalega vel það sem kennarinn segir þar sem hann talar alveg ótrúlega hratt (margir danir myndu sjálfir ekki ná því sem hann segir) þannig að margt fer svona fyrir ofan garð og neðan. En hann er nú ennþá bara fimm ára og það eru krakkar þarna alveg upp í ca 15 ára þannig að ég er nú bara mjög ánægð með hann.

Heiðar Mar bara stækkar og stækkar og hefur notað síðustu tvær og hálfa viku til að æfa sig í að velta sér yfir á magann sem hann gerði fyrst þann 4. október. Í dag fannst honum hann verða að fá soldið meiri fjölbreytni í þetta og lyfti sér upp á hnén og vaggaði sér svolítið þar. Hann kann samt ekkert almennilega að velta sér aftur af maganum yfir á bakið þó hann hafi gert það, eiginlega bara óvart. Hann er líka orðin ansi hreyfanlegur á teppinu sínu þannig að hann er farin að skoða gólffjalirnar og jafnvel sleikja þær soldið inn á milli. Það þýðir víst að maður þarf að vera örlítið aktívari í þrifunum. Og fyrst hann er farin að lyfta sér upp á hnén finnst mér ískyggilega stutt í að maður þurfi að endurskipuleggja aðeins röðunina á heimilinu, svo hann fari nú ekki að kyngja e-m geómag kúlum, smakka á videospólum og svoleiðis.

Þrátt fyrir 9 daga haustfrí gerðum við svosem ekkert sérstakt. Fyrsta daginn, á föstudeginum fórum við í natzoo, dýragarðurinn var opin frá 7-10 um kvöldið. Það var bara fínt eins og alltaf og nestið alveg hrikalega gott auðvitað. Fyrir utan samlokurnar var extra góður eftirmatur þar sem Valdimar hafði verið að hjálpa til í gourmetbúð hjá kunningja sínum. Þannig að það voru truflur og annað fínerí á matseðlinum.

Á laugardaginn vorum við svo boðin í mat til þeirra sem eiga búðina. Það var voða gaman. Við kjöftuðum og kjöftuðum og Helgi Gnýr lék sér með þeirra börnum, 7 ára stelpu og 2 ára strák sem fékk kannski meira svona að fylgja með þeim. Hann naut sín alveg í botn og aldrei að vita nema hann fari bara að heimsækja nýju vinkonu sína aftur bráðum. Annars höfðum við það bara notalegt hérna heima þess á milli.

Ætla að láta þetta duga í bili og óska afmælisbörnum morgundagsins, Þóreyju og Nonna til hamingju með daginn.

Uppáhalds kreppubloggið

október 17, 2008

Ég hef rekist á nokkur ansi góð kreppublogg undanfarið en Tinna vinkona mín finnst mér vera með það allra besta. Endilega kíkið á það.

Næstsíðasta…

október 16, 2008

manneskjan til að skrá sig inn á facebook er væntanlega ég. Mikið rosalega er þetta skrýtið. Ekki hef ég hugmynd um hvað maður á að gera þarna og til  hvers þetta er. En ég sé að það eru ýmsar upplýsingar um fólk sem fljóta þarna um.

Leitarorðin

október 15, 2008

Mér finnst svo gaman að fylgjast með því á hvaða leitarorðum fólk er að koma inn á síðuna. Þau eru orðin aðeins skemmtilegri en til að byrja með, en alls ekki eins djúsí og hjá Valdimari. Það koma t.d. mjög margir inn á leitarorðinu „laxasalat“ og undanfarið hafa líka nokkrir komið inn á „ástar sms“. Í dag kom svo einn á bleijutunna. Þvílík vonbrigði sem aumingja fólkið verður fyrir.

Við Heiðar Mar fórum í dag að hitta stelpurnar sem voru með mér í leikfimini fyrir fæðingu og smábörnin. Ég kann eiginlega mun betur við þennan hóp heldur en mömmuhópinn minn. Veit ekki af hverju. Ég hef aldrei umgengist svona marga í einu með smábörn og mér finnst líka gaman að fylgjast með hvað mömmur eru misjafnar, „fara misjafnlega með“ börnin sín og svo allt varðandi brjóstagjöfina og svo það sem tekur við. Ég hef alveg mínar meiningar um þetta allt saman en er nú ekkert að deila mikið af „visku minni“ enda er fólk misjafnlega viðkvæmt og um þetta allt eru deildar meiningar. Mér finnst bara að það sé best að hlutirnir gangi sem náttúrulegast fyrir sig ef það er mögulega hægt, bæði hvað varðar mataræði og hreyfingu, ekki klæða í of lítil föt og enga skó fyrr en labbið er komið í góðan farveg.

Uss klukkan er orðin allt of margt. Það er algjör fötlun að geta aldrei drullað sér í rúmið á skikkanlegum tíma.

Ónotaleg lífsreynsla

október 13, 2008

Í dag týndi ég barninu mínu. Helgi Gnýr fór út um hádegið að skila peysu til vinar síns. Stuttu síðar sá ég hann svo með þessa peysu hérna úti í garði (enginn heima hjá vininum sem sagt). Svo kíkti ég stuttu síðar og sá hann ekki þá – sem er nú bara frekar algengt, þá er maður vanur að sjá hann bara stuttu síðar aftur. En það bara gerðist ekkert. Ég hringdi í mömmu vinarins, öskraði út um gluggann, fór út í garð að leita, gekk út í skóladagheimilið til að athuga hvort hann hefði kannski farið þangað, hringdi hjá öðrum vini í næsta stigagangi en engin svaraði þar og ég hafði líka séð að hann var á skóladagheimilinu. Þess má geta að þetta tók allt heila eilífð því ég þurfti náttúrulega fyrst að klæða Heiðar Mar áður en ég komst yfir höfuð út úr húsi og svo var ég með hann hangandi framan á mér.

Næsta skref var þá bara að hringja í 112 – lögregluna. Þeir komu svo örugglega fljótar en mér fannst. Þeir punktuðu allt hjá sér og svo fór annar þeirra með mér hingað upp til að fá mynd af HG. Það gekk alveg hrikalega brösulega að prenta út þessa mynd og ég ætlaði bara ekki að hafa þetta af. Meðan á því stóð kom kall í talstöðina og hinn lögregluþjónninn hafði þá fundið hann heima hjá vininum í næsta stigagangi. Þar var hann í góðu yfirlæti hjá eldri (8 ára) systur vinar síns að horfa á sjónvarpið.

Þetta er svona um það bil dramatískasti klukkutími sem ég hef upplifað en allt fór þetta þó vel. Ég sem sagt kallaði á lögregluna til þess eins að banka upp á í næsta stigagangi og sækja barnið mitt. Soldið svona pínlegt fyrir minn smekk. En ég var búin að hringja á bjöllunni hjá þeim og enginn svaraði fyrir nú utan að ég var búin að öskra mig hása úti. Valdimar var á leið heim af fundi í vinnunni meðan á þessu stóð og ég vildi ekki hringja í hann því þá var ég viss um að hann myndi hjóla fyrir bíl á leiðinni. Já það vantar sko ekki dramatíkina þegar hún er á annað borð komin í gang.