Archive for ágúst, 2008

Annar

ágúst 15, 2008

skóladagurinn var mun bærilegri, jafnvel skemmtilegur. Hann sagði að það hefði verið gaman en soldið leiðinlegt „til sidst“ því þá var hann farinn að bíða eftir að verða sóttur. Prógramm frá átta til korter í eitt er alveg þokkalega langt þegar hann hefur verið samanlagt fjórar vikur í leikskólanum frá því um miðjan apríl. Á morgun verður ennþá lengri dagur því milli 7 og 8 á að vera morgunmatur fyrir börn og foreldra og svo fer hann í fyrsta skiptið á skóladagheimilið þegar formlegum skóladegi lýkur. Hann verður eflaust búin að fá nóg eftir það greyið. Annars finnst mér alveg djöfullegt að þurfa að vesenast í þennan morgunmat fyrir allar aldir. Og ekki nóg með það heldur verður skóli hjá honum á laugardaginn líka því þá á að vera vígsluhátíð í skólanum því síðustu fjögur árin hefur hann verið endurbyggður að miklu leyti. Ég játa að ég verð voða fegin þegar þessi vika er liðin.

Þá er

ágúst 14, 2008

Dagbjört komin. Kom eldsnemma í morgun. Ég var í sömu fötunum þegar hún kom og þegar hún fór síðast frá okkur í júní. En ég er vissulega farin að skipta oftar um föt síðan þá. Það var yndislegt að sjá og fá Dagbjörtu aftur. Og svo eru foreldrar Valdimars að fara aftur í dag. Þau eru búin að hugsa voða vel um okkur á meðan þau hafa verið. Eldað hverja máltíðina á fætur annari, séð um uppvaskið og litið eftir strákunum meðan ég/við höfum hlaupið út í búð og svoleiðis. Við fáum ábyggilega fáhvarfseinkenni þegar við þurfum að hugsa algjörlega um börnin okkar sjálf eftir þann 25. ágúst þegar mamma og Dagbjört verða báðar farnar aftur.

Nú ætla ég að fara að sækja skólabarnið mitt og Dagbjört kemur með. Ég vona svo innilega að það hafi verið skemmtilegra í skólanum í dag en í gær.

Hljóp á snærið

ágúst 14, 2008

Í morgunn fékk ég fyrsta ástar sms-ið mitt. Það var reyndar ekki frá Valdimari, sem heldur því samt fram að hann elski mig. Það var frá e-m elskulegum pilti sem var vaktmaður á grænum konsert fyrir þremur vikum hér í Odense og hitti mig þar. Honum þótti ég virkilega sæt og skemmtileg og vildi endilega hitta mig. Eins og þetta var nú gott tilboð og fallegt sms þá neyddist ég til að hryggbrjóta drenginn. Fyrir nú utan að ég er alls ekkert sú rétta og var á sama tíma í dýragarðinum með þeim eðalmæðgum Salnýju og Lilju Fanneyju og strákunum mínum tveimur.

Fyrsti skóladagurinn…

ágúst 13, 2008

já… hann stóð nú ekki alveg undir væntingum hjá kröfuhörðum ungum manni. Það var kallað saman í bekkina úti á skólalóðinni og svo fylgdum við foreldrarnir börnunum inn í stofu og þau voru þar svo góðan hálftíma. Það hafði e-ð verið breytt út af plani því þau áttu að vera þar í rúman einn og hálfan tíma en þess í stað var öllum skólanum safnað saman í íþróttasalnum þar sem skólastjórinn og aðstoðarskólastjórinn töluðu. Þarna fór þetta að verða leiðinlegt. Og ég skil það nú bara vel. Þetta var hundleiðinlegt bara fyrir venjulegt fólk. Svo var snúið aftur inn í skólastofuna og þar tóku við upplýsingar sem voru bara fyrir foreldra þannig að hann var nú bara búin að fá nóg. Svo tók nú betra við því svo mátti fara út að leika í smá stund áður en farið var yfir í skóladagheimilið. Það fannst honum gaman þannig að það bjargaði eiginlega deginum. Ég vona bara að hann fari að fá verkefni við sitt hæfi því hann er alveg tilbúinn í það að glíma við e-ð annað en að skrifa nafnið sitt. Svo er bara að sjá hvort barnið mun þjást af alvarlegum skólaleiða strax á fyrstu vikum skólagöngunnar.

Tölvan er enn að stríða okkur. Hún hrundi í morgunn aftur og Valdimar straujaði hana aftur. Þetta er nú alveg hrikalega sorglegt því búðin heldur því fram að það sé bara eins árs ábyrgð á henni þannig að ef hún þarf að fara í viðgerð þá verðum við að punga út fyrir því. Og við sem eigum enga aukatölvu núna. Maður vonar bara það besta. Áhugafólk um orðræðugreiningu getur svo velt sér upp úr því hvernig ég tala um þessa tölvu (Mac) miðað við hina tölvuna (HP).

Stórafmæli

ágúst 12, 2008

Í dag er Heiðar Mar tveggja mánaða. Mér finnst hann búinn að stækka ótrúlega mikið og vera voða duglegur. Hvaða mömmu myndi ekki finnast það. Hann brosir auðvitað og hjalar eins og herforingi og er núna síðustu vikuna orðin voða flinkur á maganum. Hann er farinn að líta ýmislegt dótarí girndaraugum, svo nú er bara að heilinn fatti að hendurnar geta gripið í það sem augað sér.

Á morgunn er stóri dagurinn. Hann er líklega enn stærri fyrir mig en aðalmanninn. Ég held að ég sé enn spenntari en Helgi Gnýr yfir fyrsta skóladeginum. Á morgun mætum við öll fjölskyldan kl. 9 í fyrramálið. Allir hittast fyrir utan skólann, foreldrar fylgja inn í bekk og svo förum við á kennarastofuna og fáum „mikilvægar upplýsingar“ þar.

Í gær fórum við í útréttingar, aðallega að kaupa það sem vantar upp á fyrir HG áður en skólinn byrjar. Inniskó, stígvél (í stað þeirra sem rifnuðu í tætlur og við hentum á víkingasafninu um daginn) og tvennar buxur. Hann átti orðið ekkert nema sumarbuxur og allt of stuttar síðbuxur. 

Þá er bara að vona að litli maðurinn verði til friðs í fyrramálið svo ég þurfi ekki að hífa brjóstin á mér út og draga athyglina frá „mikilvægu upplýsingunum“.

Tóm

ágúst 11, 2008

Í gær bilaði fína tölvan okkar og við erum búin að vera tölvulaus í heilann sólarhring. Nú hefur þessi fína Mac tölva verið straujuð í fyrsta sinn. Það er alveg ótrúlegt hvað maður missir mikið þegar maður hefur enga tölvu að fara í. Maður er algjörlega háður þessu tæki og netinu.

Smá

ágúst 6, 2008

Það er nú að verða soldið langur tími síðan ég bloggaði síðast. Ég er nú bara hissa á hvað fólk nennir samt að kíkja og athuga miðað við heimsóknartölurnar.

Ég er samt ekki búin að sitja aðgerðalaus en vissulega samt búin að sitja mikið. Svo mikið að ég hélt á tímabili að ég væri að fá einn af fylgikvillum þess að sitja mikið.

Eftir langt gestafrí komu Salný og Lilja Fanney að heimsækja okkur í nokkra daga. Það var voða gaman að hafa þær hjá okkur, enda ekki við öðru að búast þegar skemmtilegar konur eiga í hlut. Íris og Heiðar (foreldrar Valdimars) komu svo til okkar strax á eftir og verða hjá okkur fram til 14. ágúst og ná að hitta Dagbjörtu sem kemur sama dag. Svo ætlar mamma að koma þann 17. Með eins dags hléi eru því gestir hjá okkur frá 22. júlí til 25. ágúst. 

Helgina fyrir gesti fórum við í smá ferðalag yfir á Jótland. Enda myndi Helga Gný ekki þykja vera mikið sumarfí ef við færum ekki neitt. Við fórum til Ribe í Víkingagarð en það var frekar blautt mest allan tímann þannig að við nutum þess ekkert sérstaklega vel. Það var mjög flott leiksvæði þarna fyrir börn sem HG fannst gaman að leika sér í áður en úrhellið brast á. Svo var hægt að gera ýmislegt þarna sem hann hafði samt engan áhuga á. En það var nú samt gaman að sjá þetta.

Við keyrðum svo aðeins um Ribe og svo til Tønder þar sem við gistum í þessar tvær nætur. Daginn eftir fórum við í Danfoss Universe sem er á Als, rétt við höfuðstöðvar Danfoss. Það er svona tækni- vísinda- og orkugarður sem er alveg hrikalega skemmtilegur. Þarna naut HG sín mjög vel þó hann hafi ekkert verið að dvelja lengi við hvert og eitt. Þessi garðu er samt held ég skemmtilegastur fyrir svona 8-9 ára og eldri. 

Við keyrðum svo heim frá Tønder daginn eftir í úrhellisrigningu. Keyrslan með tvo gutta þessa helgina gekk mestan part vel. HG er núna eftir „mörg“ ár fyrst að byrja að kvarta pínulítið yfir löngum leiðum og spyrja hvenær við komum. HM var voða góður á meðan hann var sofandi en þolinmæðin var minni þegar hann var vakandi. Það er ekki mikið hægt að gera fyrir fimm vikna barn (sem hann var á þeim tíma). Hann hefur ekki gaman af dóti og er ekki spenntur fyrir snuði. En þetta hafðist allt saman. 

Síðan hann var ca þriggja vikna höfum við reynt að venja hann á snuð. Hann er enn ekki sannfærður og tekur það bara mjög stutt í einu og er óttalegur klaufi við þetta. Annars hefur hann verið voða góður en snuddan gæti vissulega stundum bjargað þegar maður er að drífa sig með hann heim pirraðan í vagninum.

Á morgun verður Heiðar Mar 8 vikna. Hann hefur stækkað ótrúlega mikið og óx hrikalega hratt upp úr fyrstu fötunum sínum. Ég er alveg miður mín  yfir öllum nýju fötunum sem hann fór í sjaldan, einu sinni eða aldrei. Núna er hann þó að fara í stærðir sem hann notar í aðeins lengri tíma í einu. Í fimm vikna skoðuninni var hann 5,2 kíló og 60 cm og veður ekki mældur aftur fyrr en 3. september. Hann hefur sofið ótrúlega vel á nóttunni. Sofnar milli 10 og 12 á kvöldin og sefur oftast í 4-7 tíma í trekk, fær sér að drekka og sefur svo meira. Um daginn vaknaði hann þrisvar og það var bara rosalegt. Hann hins vegar sefur ekkert hrikalega mikið á daginn. En maður getur ekki fengið allt. Hann notar daginn aðallega í að sperra sig og brosa í staðinn.

Við erum búin að fá ógrynni af sængurgjöfum og ætla að leyfa mér þann dónaskap í bili að þakka ekki hverjum og einum strax fyrir og nota tækifærið hér og þakka öllum (sem lesa hér) fyrir okkur. Ég er of nísk til að hringja tugi þakkarsímtala til Íslands. En ég er samt mjög þakklát og er að hugsa um að fara að leita að fólki á skype-inu. 

Næsta miðvikudag verður fyrsti skóladagur hjá HG. Skólinn verður í tvo tíma þann daginn og við verðum ekki langt undan á meðan. Ég held að hann sé soldið spenntur fyrir þessu og ég vona að hann verði ekki fyrir vonbrigðum. Við erum búin að kaupa ægilega fína Lego skólatösku sem er næstum jafn stór og hann sjálfur og svo fékk hann nýtt pennaveski frá ömmu sinni og afa. Ég kvíði því bara mest núna að koma á góðri rútínu eftir óreglu sumarsins.

Þar sem ég hef verið einstaklega ófélagslynd þá ákvað ég að ég skyldi drífa mig í svona mömmuhóp (mødregruppe) eins og tíðkast hér í Danmörku. Þá eru ca fimm mömmur sem hittast heima hjá hverri og einni með börnin sitt á hvað og spjalla í 1-2 tíma. Við erum búnar að hittast tvisvar og svo hitti ég eina á kaffhúsi í síðustu viku þar sem hinar voru fjarri í sumarfríi. Mér líst nú ágætlega á þetta en það á nú eftir að koma meiri reynsla á þetta. Soldið spes samt að mæta allt í einu heim til ókunnugs fólks.

Eins og þegar HG var lítill horfi ég nú næstum á allt í sjónvarpinu, a.m.k. með öðru auganu meðan unginn er á brjósti. DR hefur alveg slegið í gegn í sumar með ævafornum þáttum eða myndum eins og Return to Eden sem ég horfði líka á þegar ég var ca 8 ára, James Bond og Hróa Hattar þáttum sem voru líka sýndir í fyrra. Þegar HG var lítill þá hins vegar var ég með næturdagskránna á Skjá einum  á hreinu.

Ég reikna ekki með mikilli virkni hérna á næstunni en það kemur fyrir að Valdimar setji myndir inn á hliðarsíðuna sína fyrir áhugasama.

Ætla að segja þetta gott í bili.