Archive for júní, 2008

Vika

júní 20, 2008

Nú er Heiðar Mar orðinn viku gamall og gengur bara vel. Helgi Gnýr er alveg jafn ánægður með hann og sagði í kvöld: stundum þegar ég sé hann get ég ekki hætt að sjá hann. Eftir viku inniveru fórum við með litla manninn til heimilislæknisins í morgun og svo í PKU eftir hádegi. Hann er búinn að bæta á sig 400-500 gr (mjög ónákvæm vigt þarna þykir mér) og lengjast um einn cm þannig að ég tek það bara sem merki um að brjóstagjöfin sé að ganga ágætlega. Enda hefur hann tekið ansi góðar rispur þar og lítið frí. Það hefur verið voða notalegt að hafa fólk að stjana við sig á meðan á þessu stendur. En mamma fór í morgun þannig að maður verður að venja sig á lægra þjónustustig.

Valdimar og HG fóru á fund í Vestre skole í dag og svo var lokahátíð á leikskólanum fyrir elstu börnin (leikskólinn er samt ekki búinn). Þangað fór Dagbjört með þeim en þetta var nú allt saman frekar glatað þar sem ekki var gert ráð fyrir að það gæti hugsanlega rignt og þá var bara tekin bátsferð fram og til baka og nestið borðað á sjálfum leikskólanum, eins og það sé ekki nóg fyrir blessuð börnin að gera það einu sinni á dag.

Hér eru svo mynd af bræðrunum og vikugömlum litla bróður.

Hann

júní 13, 2008

Heiðar Mar er fluttur inn. Hann kom í heiminn í gær, þann 12. júní,  kl. 18:07. Hann var 3808 gr og 53 cm. 

Nánari lýsing – mjög óáhugaverð fyrir óáhugasama.

Ég byrjaði að fá verki kl. 3 um nóttina og við fórum á fæðingardeildina rétt fyrir 7 í gærmorgun og var þá komin 4 í útvíkkun. Verkirnir voru óbærilegir og ég var nú ekki lengi að biðja um epidural deyfingu og hún kom sko ekki of fljótt, ekki fyrr en að verða 10. Verkirnir sem ég fæ eru nefnilega frekar þreytandi, ca 1 mínúta á milli þannig að maður hvílist ekki beint á milli. En epiduralinn hjálpaði þannig að við vorum þarna bara í rólegheitum í útvíkkuninni og ég fann bara fyrir auknum þrýstingsverkjum. Svo var vatnið tekið með töluverðu brasi og svo var nú sett upp dropp til að auka hríðarnar eftir vaktaskipti þannig að þetta gekk nú greinilega ekki nógu hratt að mati fagfólksins. Svo var tekin blóðprufa úr kollinum á honum tvisvar sem kom fínt út í annað skiptið en ekki nógu vel í það síðara þannig að fæðingarlæknir vildi fara að gera e-ð róttækt í málunum. Ætlaði að prófa svokallaða kivisogklukku fyrst og sjá hvort hann kæmist út þannig annars yrði farið í keisara. Þá átti ég nú að fara að rembast, alveg nýtt fyrir mér í stöðunni. Þannig að ég rembdist og hausinn kom út og klukkan datt af og svo rembdist ég aftur og hann kom út. Ég sem var farin að sjá fyrir mér hálftíma – klukkutíma puð. Þetta tók bara örfáar mínútur. En ég er auðvitað öll í skralli eftir þetta. Ljósmóðirin skammaði fæðingarlækninn fyrir hvað hann fór illa með mig með sogklukkunni og sagði að hann skildi sko laga þetta. Læknirinn sagði líka þegar hann var búinn að þetta liti hræðilega út og ég skildi ekkert vera að líta þarna niður næstu vikuna. Ég fann nú ekkert mikið fyrir þessu í gær en í dag velti ég fyrir mér hvort ég verði nokkurn tíman söm. Úff. 

En hann var nú ansi slappur þegar hann kom út. Hann var búin að kúka í vatnið þannig að það þurfti að sjúga soldið upp úr honum og koma honum soldið til. En það gekk nú bara vel þannig að hann var komin á magann á mér öskrandi eftir fáar mínútur og svo var hann bara fljótlega farin að taka brjóstið. Og hann hefur eiginlega ekkert sleppt því síðan. 

Þar sem okkur leið svo bara prýðilega og vegna verkfallsins var svo bara planið að senda okkur heim eftir 4 tíma. Það teygðist aðeins úr því þar sem það leið tvisvar yfir mig þegar ekki var svo  langt í brottför og kastaði soldið upp í þokkabót. Í fyrra skiptið var það starfsmaður sem var með sem betur fer og í seinna skiptið greip Dagbjört mig. Ótrúlega skrýtið. Mamma og pabbi komu svo með HG í heimsókn fyrst heimferðin dróst. En þetta lagaðist nú og við vorum komin heim um miðnættið. Ágætt að koma bara heim, sofa í sínu rúmi í sínu umhverfi.

Þrátt fyrir allt, hræðilega verki, epidural, grænt vatn, langan tíma, sogklukku, klessu og yfirlið þá er ég bara hrikalega ánægð með þetta. Ánægð með litla manninn og mig sjálfa að hafa nú getað komið honum út rétta leið þrátt fyrir fyrri keisara. Og síðast en ekki síst ánægð með Valdimar sem tók þessu öllu með jafnaðargeði, stjanaði við mig allan daginn og varð vitni að ýmsu skrautlegu í ferlinu og það voru engar aðstæður fyrir hann til að láta fara vel um sig á meðan á biðinni stóð.

Það eina sorglega við daginn í dag er að pabbi þurfti að fara. Hann ætlaði nú að fara í gærmorgunn en fyrst ég var komin í gang frestaði hann förinni aðeins. Hann er búin að vera hjá okkur í þrjár vikur og það er búið að vera svo yndislegt að hafa hann. Dagbjört hins vegar flýtti sinni komu þannig að hún kom í gær. Mamma og Dagbjört eru því hjá okkur núna og það er ósköp notalegt að hafa aðstoð þegar maður er allur í skralli og nær varla að hugsa sjálfur um að fá sér að borða og drekka.

Jæja nóg í bili. Sjáum til hvenær myndir fara að birtast.

 

 

Engar fréttir

júní 10, 2008

Ég hef auðvitað ekkert betra við tímann að gera en að skrifa hér e-ð. En eins og er eigum við bara eina tölvu en erum aðeins fleiri í heimili þessa dagana þannig að ég er mjög tilbúin að deila henni með mér og gera e-ð annað bráðsniðugt eins og að þvo eða þrífa eða leggja mig bara.

Mamma kom á fimmtudagskvöldið þannig að hún er búin að sjá bumbuna eins og hún vildi. Núna finnst mér að unginn ætti að fara að láta sjá sig enda er pabbi búin að vera hjá okkur í næstum þrjár vikur og stjana við okkur og það er auðvitað bara dónaskapur í barninu að láta ekki sjá sig áður en hann fer, en það þarf hann að gera á fimmtudaginn. Miðað við ástandið er ég nú samt ekki bjartsýn á að e-ð gerist fljótt. Í versta falli þá lætur það ekki sjá sig fyrr en 23. eða 24. júní og það er auðvitað óbærileg tilhugsun. 

Ég er nú samt búin að gera mitt til að reyna að koma þessu af stað. Á sunnudaginn fórum við til Kerteminde og fórum í Fjord og Bælt safnið og svo á norðurströndina á eftir. Tókum rútuna og gengum sem sagt út um allt (og tókum auðvitað mjög gott nesti með). Það var ofboðslega gott veður, mjög hlýtt og passaði vel að fara bara seinnipartinn á ströndina þegar hitinn hefur aðeins minnkað. HG naut sín í botn að vaða út í sjóinn og dró pabba sinn með sér. Við mamma og pabbi fylgdumst bara með af teppinu. 

Í gær var nú bara mest afslöppun fyrir okkur flest a.m.k. en Valdimar þurfti að fara að vinna. Og ef unginn fer ekki að láta sjá sig þarf hann að vinna alveg ferlega mikið á næstunni:(

Í dag fór ég svo með pabba og HG í góðan göngutúr og ekki einn einasti stingur eða seiðingur alla leiðina. Brá mér svo aftur í bæjarferð núna seinni partinn. Nú er þýðir ekkert annað en að hafa nóg fyrir stafni svo maður bilist ekki.

Kaldlynd

júní 5, 2008

Alveg snertir þetta hvítabjarnardráp ekki eina taug í mér. Frekar að vælið yfir því pirri mig. Átti að svæfa hann og flytja hann til Grænlands svo hægt væri að skjóta hann þar frekar? Þó að þessi síða (sem vísindavefurinn hefur m.a. vísað til) varðandi dýr í útrýmingarhættu sé með hann á skrá hjá sér þá kaupi ég það ekki alveg. Samkvæmt frétt í danska fréttablaðinu fyrir stuttu hefur þeim einmitt fjölgað úr ca 8000 dýrum  árið 1965 í ca 20-25 þúsund dýr í dag. Ég er soldið hrædd um að  hvítabjörninn sé settur á skrá yfir dýr í útrýmingarhættu af því að þetta eru „sætir bangsar“ rétt eins og „gáfuðu hvalirnir“.  Svo játa ég að ég væri alveg til í að smakka ísbjarnarlundasteik eða gómsætt ísbjarnarpaté. Sé alveg fyrir mér að það færi vel um það innan um kræsingarnar á jóladagsbrunchborðinu hjá mágkonu minni;)

Það er á hreinu að engum afmælisdögum verður stolið í þessu holli. Birkir, Vaka (bæði 8 ára) og Jóhanna Dagrún (eins árs) hafa átt afmæli síðustu daga. – Til hamingju með það foreldrar. Helst langar mig að klára þetta sem fyrst. Ég er að verða soldið óþolinmóð núna. Kannski verður þetta þann 14. eftir allt saman. Annars fór ég að finna fyrir bjúg í fótunum í fyrsta skipti í gær sem ég kalla bara gott. Tókst ekkert að ganga hann af mér áðan samt. Fórum í smá gönguferð í bæinn í kvöld því það  var „open by night“ sem er svona menningarnótt nema mínus menning, aðallega bara sala og fullt af fólki. Komum við í Irmu í örvæntingarfullri leit að góða tyrkisk peber ísnum. Fundum hann ekki en fundum soldið íslenskt nammi og keyptum smá. Þetta er auðvitað rándýrt eins og allt í þessari búð. En svosem alveg hægt að kljúfa þetta.

Jæja farin í bælið. Allir farnir að sofa nema ég. 

Ragnarök

júní 4, 2008

Kreppan, hrikalegir jarðskjálftar, ísbjörn. Þetta getur ekki verið tilviljun.

Mjög tengt þessu þá er videovélin okkar biluð á frekar mikilli ögurstundu. Ögurstundin er reyndar ekki komin. Valdimar talaði við pabba sinn í gærkvöldi og þá ætla þau að bjarga okkur og senda mömmu með eina vél til að lána okkur. En mamma er væntanleg mjög fljótlega. Algjör lúxus að geta fengið lánaða vél. Við vorum farin að hugsa um að kaupa aðra vél og það gæti svosem farið svo á ef viðgerðin verður dýr. Við HG og pabbi fórum í langan strætótúr í dag til að koma vélinni í viðgerð. Ótrúlegt hvernig allt svona vesen raðast langt í burtu frá heimili manns. En maður lærir þá aðeins á strætókerfið í staðinn. Undir eðlilegum kringumstæðum hefði maður nú bara hjólað þetta sem hefði verið einfaldast og mest tímasparandi, en ég er nú ekki í alveg í 10-12 km hjólatúrsstuði akkurat núna þó ég hjóli það helsta hérna í nágrenninu.

Siesta

júní 3, 2008

Það er orðið það heitt að ég er búin að sjá það að ég þarf helst að halda rúmlega siestu. Ég þoli hitann ekkert serstaklega vel núna og finn að um leið og ég er farin að ganga úti í hitanum rennur bjúgur fram í fingurna. Svo eftir svona hálftíma – klukkutíma inni er hann runninn af aftur. Í dag voru ca 26 gráður í forsælu þannig að það var ríflegur hiti þar sem sólin skein, sem er á flestum stöðum því hún er orðin svo hátt á lofti.

Í tilefni dagsins í gær, sjómannadagsins, bauð pabbi okkur út að borða í gærkvöldi (auðvitað hefði verið nær að við hefðum boðið honum). Við fórum á Den gamle kro. Það var alveg ljómandi fínt og skemmtileg tilbreyting fyrir okkur sem höfum neitað okkur um svoleiðis lúxus frekar  lengi. 

Valdimar var búin að lofa HG veiðitúr í gær en við vorum nú ekki beinlínis í stuði til að fara að veiða og ekki beint veiðiveður, sól og blíða – eða bræla eins og pabbi kallaði það. En það var nú ekkert hægt að tala drenginn til þannig að við fórum. Þeir slógu ána og ég lét bara fara vel um mig á teppi hjá þeim. Veiðileyfið kostaði 50 dkk en Valdimar tapaði spúnum, flugum og flotholtum fyrir a.m.k. 200 dkk og enginn fiskur kom á land. En við borðuðum þó voða gott nesti og fengum okkur hjólatúr þannig að við fengum þó e-ð út úr ferðinni. Milli hjólatúrsins og göngutúrsins á veitingastaðinn hljóp HG stanslaust hérna úti í garði þannig að hann gerði það mjög gott hérna í gær og var orðinn ansi lúinn í gærkvöldi.

Laugardagurinn var frekar tíðindalítill. Valdimar var að vinna og við kíktum aðeins í bæinn. Ég endurnýjaði kynnin við grænmetismarkaðinn sem ég hef skrópað á síðan fyrir jól. Og með gríðarlegt samviskubit þess vegna lét ég ekki nægja að kaupa bara egg hjá eggjamanninum heldur keypti líka hunang af honum og ný dönsk jarðarber, ótrúlega góð miðað við svona fyrstu ber.

Fyrir kvöldmatinn í kvöld komu systkynin í næsta stigagangi í smá heimsókn. Það voru læti og það var ruslað til. Held ég þurfi að vera leiðinlega mamman næst og setja e-r skýrar reglur um umgengni. Svo var nú kominn tími til að fara heim og þá fóru þau bara – án þess að kveðja. Þetta verður ekki svona laust í reipunum næst það er á hreinu. Hvort eða hvenær sem það nú verður.