Archive for maí, 2008

Gaddur

maí 14, 2008

Nú er hlýja sumarveðrið yfirstaðið og komið venjulegt kalt gott vorveður. Ég hefði alveg getað notað úlpuna mína þegar ég hjólaði áðan í vaxtarsónarinn. En þegar maður hefur einu sinni gengið frá vetrarúlpunni þá tekur maður hana ekki fram aftur, sama hversu kalt verður, „thats my filosophy“. 

Jæja sónarkonan reiknaði út að barnið væri núna 3274 gr svo það er nú þegar búið að ná fæðingarþyngd margra barna, en á samt eftir örugglega fjórar vikur þarna inni að vaxa ennþá meira, þó ég láti mig dreyma um að það komi fyrr.

Það verður sem sagt pottþétt verkfall frá og með næstu viku og því er spáð að það vari í a.m.k. tvær vikur. Það er svosem ekkert mál að hafa HG heima. Ég er bara mest leið yfir að hann missi þann félagsskap sem hann hefur á leikskólanum og þarf svo mikið á að halda. En reyndar er hann nú farinn að fara hérna út í garðinn og leika soldið við krakkana í næsta stigagangi. Í gær sinnaðist okkur aðeins og hann fór inn í herbergið sitt. Svo mætti hann fram í gang og sagði fúll og ákveðinn „ég ætla að fara út!“ Við erum aðeins að venjast þeirri tilhugsun að hann GETI farið einn út í garð en það er mjög erfitt að slíta sig frá gluggunum. Við erum jú í stórhættulegum útlöndum.

Gott vont

maí 13, 2008

Ég er búin  að uppgötva hrikalega góðan ís, svona tyrkisk peber is. Hann er samt soldið vondur en góður vondur.

Það lítur út fyrir að HG fái að vera enn meira heima frá og með næstu helgi þar sem leikskólakennararnir hafa hafnað sínum samningi og byrja í verkfalli á mánudaginn. Það er auðvitað óþolandi að það sé ekki hægt að finna peninga til að borga fólki í þessum grundvallarstéttum almennileg laun þegar hægt er að halda úti árásarher í fjarlægum löndum og halda uppi konugsfjölskyldu með öllu því rugli sem því fylgir. ARG.

Ljósmæðurnar eru enn í verkfalli ásamt flestum umönnunarstéttunum sem þýðir að ef það verður ennþá verkfall þegar unginn lætur sjá sig og EF fæðingin gengur vel verðum við útskrifuð eftir fjóra tíma. En eftir síðustu reynslu mína þá reikna ég ekki beinlínis með því. 

Í morgun fór ég til ljósmóður. Eftir að hafa beðið í klukkutíma fór ég nú aðeins að spyrjast fyrir en þá hafði ég bara fengið tíma en ritarinn ekkert skráð hann neitt nánar. Þannig að mér var skotið inn í kaffinu hjá henni greyinu. Ég náði þó ekkert að láta mér leiðast mikið þar sem ég hitti eina sem var á fæðingarnámskeiðinu þannig að við spjölluðum lengi. En það leit allt bara vel út. Hún skaut á að það væri núna ca 2900 gr. Spennandi að sjá hversu vel það stenst því ég er að fara í vaxtarsónar í fyrramálið. Svo á ég að mæta aftur til ljósu eftir tvær vikur. 

hjóli hjól

maí 11, 2008

Hér hringdu vekjaraklukkur í morgun kl. 7 og við vorum komin af stað í hjólatúr kl. 9. Við hjóluðum leiðina sem Valdimar hjólar alltaf í vinnuna, ótrúlega falleg leið  og notalegt að vera bara á hjólastíg alla leiðina. Maður er voða fljótur að koma út í sveit og svo eru leikvellir á leiðinni þar sem við stoppuðum aðeins. Aðalafreksmaðurinn er auðvitað Helgi Gnýr sem hjólaði alla leiðina sjálfur á hjólinu sínu (ekki þessu pínku pons þó heldur nýju/eldgömlu sem hann fékk gefins). Þetta voru nefnilega heilir 20 km, sem er nú bara töluvert fyrir litla fætur. En hann kvartaði ekki yfir þreytu og er bara orðinn ansi lúnkinn á hjólinu. Það er voða gaman að sjá hvernig færnin eykst smám saman, að geta litið í kringum sig án þess að missa jafnvægi og svoleiðis. Endastöðin okkar var inni í skógi hjá gruggugri tjörn sem við höfum ekki hugmynd um hvar en þar var nóg af flugum. Þrjár þeirra fengu sér sopa af mínu eftirsótta blóði. Verði þeim að góðu. Komum svo heim aftur rúmlega eitt glorhungruð þar sem eina nestið var banani og epli á mann + vatn.

Það erfiðasta fyrir mig var að halda í mér síðustu tvo tímana. Það vantar alveg hreinlætisaðstöðu á leiðinni. Spurning um að stöðva umferð á hraðbrautinni. Annars var þetta bara yndislegt að drífa sig svona út og fá smá „naturoplevelse“ með tveimur uppáhalds köllunum mínum.

…og frá síðustu færslu. Fengum dýrindis fisk, havbasse, grillaðan í fyrradag. Og svo er búið að þvo utan af sófanum. Það er samt eitt sem kemur mér í ójafnvægi, allt er hreint en samt er ennþá svona kusk og svoleiðis á áklæðinu. Engin ósköp svosem en ég kann bara ekki við þetta og er  frekar pirruð yfir að geta ekki keypt svona límrúllu til að renna yfir sófann fyrr en á þriðjudaginn. Ef ég verð ekki búin að gleyma þessu þá. En hreinn er hann. Svo komst Valdimar að því að það er hægt að snúa gluggunum alveg við þegar maður opnar þá upp á gátt. Mjög freistandi að ráðast næst í gluggaþvott.

Óbærilegur…

maí 9, 2008

hiti! Eins og ég elska gott veður þá hef ég alveg afskaplega lítið hitaþol. Það var líklega um 30 stiga hiti þar sem við settumst út í garð og fengum okkur hádegissnarl og það er bara allt of heitt  fyrir mig. En veðrið er auðvitað draumur, maður þarf bara að velja sér góðan stað, stundum jafnvel inni til þess að njóta þess.

Svo getur maður nú alltaf fundið sér e-ð til að kvarta yfir. Eins og sólarvörn er nauðsynleg þá finnst mér svo ferlega leiðinlegt að bera hana á. Og það þarf helst að bera á HG tvisvar á dag, á morgnana og svo um hádegið. Það hefur sem sagt ekki verið gert um hádegið síðustu daga á leikskólanum eins og þó hefur verið tilkynnt að gert væri þannig að HG er fyrsta skipti svolítið rauður á framhandleggjunum. En í dag gáfum við honum bara frí og hann er búin að fá sína skammta og ég minn. 

Stefnan er að grilla fisk í kvöld. Sjáum samt til hvernig nennan verður.

Í fyrramálið á svo að þvo utan af sófasettinu. Það verður engin leti sem kemur í veg fyrir það, það skal gert enda kominn tími til. 

Smári

maí 7, 2008

Á leið heim úr leikskólanum í gær kom HG auga á smárabreiðu við hliðina á gangstéttinni. Ég sagði honum að næstum allir væri með þremur laufum en ef maður finndi einn með fjórum þá mætti maður óska sér. Ég sá nú soldið eftir því þar sem hann sagðist ætla að finna einn svoleiðis og ég var ekkert æst í að bíða heila eilífð eftir því (sérstaklega þar sem ég hafði beðið í svona korter eftir honum á leikskólanum meðan hann var að sinna einum af frumþörfunum). Ég hafði varla náð að segja ooooh inni í mér þá var hann kominn með einn fjögurra laufa smára í hendurnar. Vonandi þýðir þetta bara að hann sé lukkunnar pamfíll, hvað sem það svo þýðir.

Sykurþolsprófið búið og kom vel út. Í næstu viku er það svo ljósmóðir og vaxtarsónar. Þá fer þetta nú bara að vera komið gott. 35 vikur +4 í dag.

Viðrun

maí 7, 2008

Í dag fengu sængur, koddar rúmföt og teppi, viðrun og þvott eftir því sem við átti. Það var yndislegt veður og brakandi þurrkur eins og amma hefði sagt. Sængurnar hafa hreinlega ekki fengið almennilega viðrun síðan við fluttum til DK því við erum fyrst núna með snúrur. En ég hef svosem farið með þær út og hrist þær soldið. Snúrurnar litu út eins og um stórt heimili væri að ræða, fjórar fullorðinssængur og fjórar barnasængur héngu úti. Núna ilmar útilyktin yndislega í svefnherbergjunum. Útilykt er besta lyktin held ég. Því miður verðum við svo að bíða með alla viðrun þangað til frjókornatímabilinu er lokið svo líkamleg og ekki síður andleg heilsa eiginmannsins haldist sem best.

Valdimar keypti grill í dag og var það vígt með pylsum í kvöldmatinn. Það er alveg yndislegt að sitja svona úti og mun skemmtilegri aðstæður hér en voru á Jagtvej. En það er ansi langt að bera vistirnar samt. Eigum bara eftir að finna e-ð gott kerfi á það.

HG var úti sirka samfleitt í tíu tíma í dag. Svona á þetta að vera. Hann var líka orðinn þreyttur og skítugur þegar við fórum inn um hálf níu í kvöld. 

Í fyrramálið er það svo síðasta sykurþolsprófið. Get varla beðið eftir að ljúka því af. 

VOR

maí 5, 2008

Nú er bara ekta vorveður, sól og blíða, og verður a.m.k. út þessa viku. Yndislegt. Já ég veit, ég er ótrúlega upptekin af veðri.

Það virðist vera búið að semja þannig að vonandi fer allt að falla í rétt far fljótlega. Það var talað um að fólk myndi mæta til vinnu strax og kjósa svo um samninginn. Ég vona bara að launafólkið fái e-ð fyrir sinn snúð, ekki bara e-a tilfærslu milli liða. Það væri nefnilega mun skemmtilegra að hafa fullmannaða fæðingardeild og svoleiðis þegar þar að kemur. Svo þurfum við Valdimar líka að fara að kíkja á deildina sem fyrst og það þýðir voða lítið held ég nema það sé fullmannað.

Hjólaði í skólann í dag með bækur. Það er nú að verða í lengsta lagi að hjóla þangað með þessa bumbu en það er hægt. Fór svo í bakaleiðinni í dótabúð og keypti svona stöng með tennisbolta á bandi. Það er auðvitað keypt handa prinsinum en það var nú samt aðallega mig sem langaði í þetta fyrir hans hönd. Það var nú ekkert gaman að hjóla með þetta heim en ég kom mér nú bara í þau vandræði sjálf.

Fór í morgun í síðasta skiptið til næringarfræðingsins. Hún er nú alveg frábær en ég verð nú að játa að ég hef ekki mikið farið eftir því sem hún hefur bent á. En ég hef þó gert e-ð. Svo fór ég til heimilislæknisins í eftirlit líka. Ég skil hreinlega ekki af hverju í ósköpunum maður þarf að fara til hans líka, að það sé ekki nóg að fara til ljósmóðurinnar sem ég er að fara til eftir viku. Það er verið að gera nákvæmlega það sama. 

Fyrir hafragraut

maí 2, 2008

Þegar maður er ekki í fastri 9-5 vinnu eða vinnur hvort sem er allavegana  og verkfall hefur haft áhrif á HG þá er svona aukafrídagur eins og í gær bara eins og hver annar dagur. Við fengum bréf á miðvikudaginn um að HG mætti koma í leikskólann í næstu viku. Það á sem sagt að rótera e-ð með hverjir þurfa að vera heima. Annars lítur út fyrir að það sé verið að fara að semja, þannig að verkfallinu líkur væntanlega í næstu viku. Það þýðir líka að það verður hentugra fyrir okkur að skoða fæðingardeildina því þá verður allt opið til að skoða og ekki undir/neyðar mannað.

Á miðvikudaginn fórum við á tónleika hjá symfóníuhljómsveitinni hérna í Odense. Þeir voru sérstaklega ætlaðir börnum þar sem Pétur og úlfurinn var m.a. spilaður og fleiri svona aðgengileg lög sem margir þekkja – en kannski ekki börn samt. HG hafði nú ekki alveg þolinmæði fyrir þessu öllu en fannst þó voða gaman þegar Í höll dofrans kom. Þegar tóleikarnir voru búnir máttu börnin svo prófa hljóðfærin. Hann var nú ekkert æstur til að byrja með en vildi helst byrja á að prófa trompet þá var hann kominn í gang og prófaði nokkrar trommur, klarinett, kontrabassa, óbó og fiðlu og hefði alveg getað hugsað sér að prófa fleira ef þeir hefðu ekki haft þetta svona stutt.

Jæja, hafragrauturinn klár.