Archive for maí, 2008

Úr fjarlægð

maí 30, 2008

Skrýtið að fylgjast með öllum jarðskjálftafréttunum svona úr fjarlægð. Fengum það reyndar alveg í beinni á msn-inu þegar Dagbjört fann fyrir honum í kjallaranum á kvennadeildinni. Hef hugsað til fyrrum vinnufélaga míns í „810 paradís“ („hvaða rugl er nú það?“ hugsar þá fólkið í 740 paradís;). Samkvæmt fréttum þá hafa allir orðið fyrir tjóni á innbúi og mörg hús hafa skemmst. Vona bara það besta fyrir hans hönd. Og kveðja til þín og fjölsk. ef þú lest ennþá:)

Í dag eru allir í fríi og voða gott veður. Það er ekkert á dagskrá en við finnum okkur örugglega e-ð að gera. Eins og t.d. að borða ís. 

Rapport

maí 29, 2008

Best að rapportera aðeins til að koma sér í gang. (Bið þá afsökunar sem héldu að þetta væri lærð grein um ákveðið tímarit). 

Við skelltum okkur í dýragarðinn á laugardaginn. Það sem stóð upp úr voru halakörturnar í hrúgum í tjörninni hjá skjaldbökunum. Nú langar mig bara til að fara að sjá froska. Hef ekki séð villtan frosk síðan við fluttum. Svo settumst við og fengum okkur ís sem er nú ekki í frásögur færandi nema hvað að þegar við vorum að fara af stað aftur þá duttum við Valdimar aftur fyrir okkur á bekknum. Ákaflega neyðarlegt atriði sem fáir urðu vitni að sem betur fer (kosturinn við að vera seint á ferðinni). Svo vorum við á heimleið og þá neyddumst við til að fara í gegnum búðina í dýragarðinum. HG fer auðvitað alltaf að biðja um e-ð og ég sagði honum að það stæði nú ekki til að kaupa neitt núna. Þá sagði hann frekar strangur við mig „ég sagði síðast [þegar við fórum í dýragarðinn] að þetta gæti ekki alltaf verið svona!“ Hann kríaði þannig slöngu frá afa sínum og svo keyptum við dýrapassara skyrtu og derhúfu handa honum sem hann var svosem ekkert að biðja um en er mjög ánægður með. Eini gallinn er að hann getur yfirleitt ekki verið í fötum nema í einn dag og hefur átt mjög erfitt með að bíða eftir næsta þvottadegi. 

Á sunnudaginn grillaði Valdimar alveg hrikalega góðan kjúkling. Svosem engar stórfréttir, þetta var bara svoo gott. 

Á mánudaginn rigndi alveg hrikalega mikið en við litla fjölskyldan þurftum þó að drífa okkur út til ljósmóðurinnar í eftirlit þannig að við hjóluðum þangað. Þá er nú gott að eiga góðann regngalla. Didrikson bjargaði alveg þessum degi. Valdimar er nú svo hégómlegur að hann fór bara í léttann regnjakka og var hundblautur. HG hafði það huggulegt í hjólavagninum blundaði á leiðinni. 

Þriðjudagur var í fyrradag og ég man ekkert hvort e-ð markvert eða ekki henti þá.

Í gær fórum við HG með pabba í verslunarmiðstöðina til að kanna hlaupaskó og verð á þeim. Það var aðallega góður göngutúr og við fengum okkur ís í leðinni. Mjög fínt. 

Í dag er svo þvottadagurinn sem hefur verið beðið með óþreyju síðustu daga. HG og pabbi fóru í göngu/hjólatúr á gamla rólóinn okkar niðri í Munkemose og komu glorhungraðir heim. 

Sem sagt engin stórtíðindi. Enda ekki við því að búast. Þar sem Valdimar er afar latur á sinni síðu (en mjög ólatur á öðrum vígstöðvum) get ég sagt frá því að hann skar af sér eitt stykki fingrafar síðasta fimmtudag. Þannig fékk hann helgarfrí í lengra lagi en blandað með töluverðum sársauka svona framanaf. En þetta grær voða vel og hann fór í vinnu á þriðjudag.

Þannig var nú það.

Nýklipptir

maí 23, 2008

Þeir eru allir ægilega fínir eftir klippinguna. Hér eru myndir af aðalmanninum – fyrir og eftir. Og hann er auðvitað mjög sáttur við klippinguna sína.

Svo spillir auðvitað ekki fyrir að vera í svona gæjalegum sumarfötum:)

Nú er það bara húsmóðirin á heimilinu sem er frekkar ólekker um höfuðið. En það stendur samt ekki til að gera neitt í því þó ég hafi síðast farið í klippingu hjá Sigrúnu fyrir jólin.

Mættur

maí 23, 2008

Pabbi kom í gær að nálgast fjögur. Sem betur fer ekki seinna því það var óþolinmóður ungur maður sem byrjaði að spyrja kl. 9 í gærmorgunn „hvenær kemur afi?“ og svo með ákaflega þéttu millibili. Hann kom færandi hendi með nammi, blöð og bækur handa okkur öllum – og sagógrjón. Bók um eðlur hitti alveg í mark hjá HG. Og svo sendi Hjörvar mér fallegt hálsmen og HG voða fín sundgleraugu sem ég vona að hann geti nú notað í sumar. Það er bara eins og jólin séu komin.

Karlpeningurinn fór allur til hans Dogans í klippingu. Þeir voru allir orðnir ansi hárfagrir þannig að ég reikna með mikilli breytingu. HG verður eflaust með hvítann ramma milli litarins sem hann er búin að fá og nýju hárlínunnar. En það er nú bara gaman.

Og gaman að Ísland skildi nú loksins komast áfram í júróinu. Mér fannst bara vanta Draupni á sviðið. Það verður allt fallegra og skemmtilegra þegar hann er nærri.

Gaman

maí 21, 2008

Tölvuviðskiptum okkar við Bilka er lokið. VUHÚ! Valdimar fór og sótti tölvuna í gær úr viðgerð. Svo þegar heim var komið gekk bara mjög illa að halda henni gangandi. Hún hitnaði mikið og slökkti stanslaust á sér. Við prófuðum að strauja hana, nokkrum sinnum, en hún hélst ekki gangandi nógu lengi til að komast í gegnum það ferli. Þannig að við HG fórum í leiðangur í Bilka í dag. Ég var alveg ákveðin í því að ég ætlaði að fá peningana til baka í þetta sinn eða „køre klagesag“ í gegnum forbrugerstyrelsen. Fyrst átti nú að pranga inn á mig sambærilegri tölvu en ég gaf mig ekki og svo mætti yfirmaðurinn og þegar ég gerði honum það ljóst þá var þetta ekkert mál. Fékk 7 þús. dkk til baka í hundraðköllum:) Þvílíkur léttir að vera laus við þetta rusl!

Í leiðangrinum komum við við í skólanum og í barnabúð að kaupa smotterí þannig að allt er að smella. Fyrir hádegið var meira að segja stóri þvottadagur þannig að ég get hreinlega farið að pakka ofan í tösku. Það veitir ekki af að fara að taka það saman því það er nóg sem þarf að taka með. Það eru sko engir bleikir eða bláir gallar sem maður getur gengið í og bleyjulager fyrir móður og barn, ónei. Þetta allt og miklu meira til (allt annað sem maður þarf að nota yfir höfuð!) þarf maður að mæta með sjálfur. Maður er svo vanur lúxusnum á Landspítalanum að manni finnst hálf skrýtið að þurfa að mæta með bleyjupakkann með sér.

Á morgun kemur pabbi. Við HG ætlum að mæta á lestarstöðina en Valdimar verður að vinna langan dag. Við hlökkum til.

Þrýstingurinn

maí 19, 2008

Ég er ekki viss um að blóðþrýstingurinn sé jafn fínn í dag og undanfarið. Fyrir því eru tvær ástæður:

1. Hringdi í Bilka þar sem tölvan hefur verið í rúmar þrjár vikur í viðgerð. Jú hún var tilbúin. HÚN VAR TILBÚIN ÞANN 8. MAÍ. Ég hélt ég myndi garga á manninn. „Við sendum bréf“. Já einmitt. Það virkaði líka svo vel síðast þegar hún fór í viðgerð sem var í júlí í fyrra. Það hefur ekki enn borist.

2. Þar sem ég hef mjög mikinn áhuga á innflytjendamálum og þar undir móttöku flóttamanna hef ég kíkt inn á þessa bloggsíðu. Og svo ummæli mannsins á öðrum bloggsíðum og fjölmiðlum. Þetta mál er að verða soldið eins og líkfundarmálið fyrir Neskaupstað. Það getur vel verið að e-ð sé til í því sem maðurinn segir varðandi kynningu á málinu og undirbúning. Það er bara svo helvíti erfitt að koma auga á það innan um allar svívirðingarnar og fúkyrðaflauminn. …eða eins og sumir kalla það „vandaða greinargerð“ og „opna umræðu um innflytjendamál“.

Jæja ætla að fara að róa mig og búa til sagógrjónagraut úr síðustu grjónunum af lagernum sem keyptur var í fyrra í Melabúðinni. ÓNEI síðustu sagógrjónin! Anda djúpt.

Einbeittir

maí 18, 2008

Valdimar er búinn að vera að brasa í matseðlagerð. HG fannst það mjög áhugavert og hér eru þeir tveir mjög einbeittir að rissa upp réttina hérna eftir kvöldmatinn. HG þótti t.d. vanta pistasíu á sköturétt með mjög fansí nafni og það var komin mikil dramatík í þetta þar sem maður var að fá svo hrikalega heita steik að hann brenndi sig á tungunni og það rauk upp úr hausnum á honum. Þetta var allt svona hófstilltara hjá Valdimari.

Á fimmtudag fjölgar heimilisfólkinu um einn þar sem pabbi ætlar að skella sér til okkar. Það verður nú bara notalegt. Ég er samt hrædd um að ég fái ekki að fara ferða minna jafn frjáls á hjóli eins og hingað til þegar pabbi verður mættur á svæðið til að ræða það mál í eigin persónu. Það er bara svo miklu auðveldara og fljótlegra að ferðast um að hjóli heldur en að kjagast um með samdráttarverki alveg niður í… En þar sem ég er farin að líta svo afkáralega út á hjólinu með lappirnar út til hliðanna m.a. þá held ég að ég fari nú brátt að draga mig í hlé.

ókristilegt

maí 18, 2008

Þegar ég ætlaði að læða mér á klósettið rétt fyrir sjö í morgun þá var prinsinn bara mættur fram í stofu að bíða eftir að sjónvarpsdagskráin byrjaði. Ég er nú mjög sátt við að forgangsröðunin hafi færst frá því að vekja okkur á svona ókristilegum tíma, en að sitja bara og horfa á ekki neitt í sjónvarpinu er bara hálf trist. Tala nú ekki um að vakna svona snemma á sunnudagsmorgni þegar ekkert er á dagskrá.

Þetta hefur ekki verið stór framkvæmdadagur en ég er þó búin að þrífa gluggana að utan. Voða gaman að horfa út án þess að hlussu fuglaskítur og almenn drulla byrgi manni sýn.

Það er komið lítið seiði í fiskabúrið. Ég stórefast nú um að það komist á legg þar sem það er einn stór fiskur sem terroriserar allt búrið og á örugglega sök á því að það vantar bita í sporðinn á einum af litlu gullfiskunum.

Mynd

maí 17, 2008

Svona var bumban í akkurat 36 vikum

óhjátrúarfull

maí 16, 2008

Þar sem 37 vikurnar eru alveg að skríða inn núna um helgina þá skrapp ég í bæinn í dag í ýmsar útréttingar. Skráði HG í íslenskukennslu og fór í Matas, H&M og aðra fatabúð. Eftir frekar stutta könnun sýnist mér H&M vera sirka eina búðin sem selur hlutlaus barnaföt fyrir okkur þau fáu sem ekki fáum að vita kyn barnsins fyrir fæðingu. Ég keypti nokkra garma á ófædda barnið og það stóra líka þar sem hann bráðvantaði léttar sumarbuxur o.fl. Hjátrúarfullir fá kannski fyrir hjartað að heyra af því að maður sé að kaupa svona á ófætt barnið en ég er öll að koma til á því sviðinu. Ef e-ð kemur fyrir þá er það nefnilega alveg örugglega ekki af því að maður hefur keypt e-ð í e-i búð. En áður en HG fæddist þá man ég bara ekki til þess að við höfum keypt nokkurn skapaðan hlut. Fengum allt lánað og gefið.

Á morgun ætlum við að sækja vöggu til Þóreyjar og Atla sem þau ætla að lána okkur og á þriðjudaginn munum við fá vagninn sendann heim þannig að þetta er svona allt að koma.

Nú er HG kominn í verkfallsfrí aftur. Valdimar verður að vinna mikið alla næstu viku þannig að við verðum að finna okkur e-ð skemmtilegt að gera svo við drepumst ekki bæði úr leiðindum.