Archive for apríl, 2008

Ósvífni

apríl 29, 2008

Við HG komum við í einni búð á leið okkar á pósthúsið í dag. Inni í búðinni varð honum mál að pissa, þvílíkt mikið mál að pissa eins og alltaf þegar hann lætur vita á svona stöðum. Ég spurði auðvitað kurteislega hvort við mættum nota  klósettið hjá þeim. Nei það var því miður ekki hægt. Því miður neyddist ég því til að láta hann pissa utan í rafmagnskassa við vegginn utan á búðinni.

Hygge

apríl 29, 2008

Hvað er ljúfara en að  liggja með prins póló, vatn og Fréttir frá mínu landi og taka svo lúr á eftir? Allt þetta var í boði Dagbjartar, jah, nema danska kranavatnið. Takk fyrir mig.

Svo er það fyrsti kynfræðslutíminn á eftir. Ekki seinna vænna enda drengurinn að verða hálf sex ára. Æsta Ástráðskonan hún systir mín sendi honum nefnilega bókina Svona varð ég til. Það þykir víst góð latína að heyra þessar fréttir frekar frá foreldrum sínum en óprúttnum drengjum á skólalóðinni. 

 

Jæja

apríl 29, 2008

Þá er komin rigning aftur og hitinn lækkað allverulega. En við erum búin að nota góðviðrisdagana það vel undanfarið að rigningin hefur nú engin áhrif á okkur – ennþá. Við HG skelltum okkur í dýragarðinn í gær. Það var líklega 23 stiga hiti og bara dásamlegt að spóka sig þar enda mjög fáir þar á ferli á mánudagseftirmiðdegi. 

Annars spurði hann í morgun hvort „ég þyrfti að fara e-ð í dag“. Hann er held ég orðin soldið leiður á þessum reddingum hingað og þangað sem hann greyið þarf alltaf að fylgja með í núna meðan á verkfallinu stendur. Alls konar búðaleiðangrar sem hann sleppur yfirleitt við, viðgerðarleiðangur í Bilka og í gær þurfti hann að koma með mér í klukkutíma langt viðtal við lækninn sem er að vinna að rannsókninni sem ég er með í. Hann var alveg að missa þolinmæðina á biðstofunni áður en við fórum inn í viðtalið en svo var ekkert mál fyrir hann að bíða í klukkutíma á meðan viðtalinu stóð, skoðaði bara e-ð fiskablað sem hann var með og teiknaði.

Það lítur út fyrir að við þurfum að kyngja þessari viðgerð á tölvunni. Ég hringdi í forbrugerstyrelsen í morgun og fékk ágætar útskýringar á hvaða reglur gilda. Núna framlengist að minnsta kosti ábyrgðin á þráðlausa netkortinu um tvö ár og ef það bilar aftur þá megum við krefjast peninganna aftur. Og ég ÆTLA mér að fá peningana aftur fyrir þessa tölvu. Þetta er mesta rusl sem ég hef nokkurn tíman komist í kynni við og mér finnst bara ótrúlegt að það megi yfir höfuð selja svona. 

Go’moren

apríl 27, 2008

Valdimar er farin í vinnuna og HG vaknar allt of snemma, sérstaklega miðað við að hann sofnar ekki svo snemma á kvöldin. Ég sofna heldur ekki svo snemma á kvöldin þannig að ég er ekki neitt sérlega hress á morgnana. Reyndar sérlega óhress í dag þar sem ég svaf illa og pissaði allt of mörgum sinnum.

Það lítur út fyrir að verða gott veður í dag þó það sé ekki sól. Það voru nefnilega 12 gráður á mælinum strax í morgun kl. 8. 

HG fékk 7 nýja fiska í búrið sitt í gær. Þeir virðast bara vera sprækir ennþá. Held við þurfum að passa okkur á að ofala þá ekki svo þeir fari ekki að hrynja niður. Einn lítill bobbi hefur svo læðst með gróðrinum og það var alveg bein útsending frá fiskabúrinu í gær um hvað hann var að gera. Ótrúlegt hvað þau komast hratt yfir þessi litlu kvikindi. 

Í gær keyptum við líka nýja stóla í eldhúsið í staðinn fyrir klappstólana sem við höfum látið duga allt of lengi eða síðan við fluttum í desember. Þetta er e-r billeg Arne Jakobsen eftirlíking sem smellpassar fyrir okkur. 

Á morgun á Bilkamaður að hringja út af tölvunni. Ég á að öllum líkindum eftir að gráta í símann ef hann ætlar að láta gera við hana eða pranga inn á okkur nýrri druslu. Ég vil bara fá peningana til baka og það strax, helst fyrir einu og hálfu ári síðan þegar hún bilaði fyrst. Best að glöggva sig á dönsku neytendalögunum aðeins í dag til að vera undirbúin fyrir leiðindin.

Afrek dagsins

apríl 25, 2008

…er tvímælalaust að klippa táneglurnar. Spurning hvort það verður bara nokkuð gert aftur næstu 6 vikurnar nema splæst verði í fótsnyrtingu.

Leiðindi dagsins voru að fara eina ferðina enn með helvítis fartölvudrusluna bilaða í Bilka. 

Það er komin rigning. Það er bara gott enda veitir vorgróðrinum ekkert af vökvun.

Gleðilegt sumar

apríl 24, 2008

Það er svosem enginn sumardagurinn fyrsti hér í Danmörku eða frídagur en dagarnir hjá okkur mæðginum núna eru samt bara hver frídagurinn á fætur öðrum í þessu verkfalli. Í dag fór hitinn í 20 stig þannig að það var nú ansi sumarlegt hérna. Það hefur verið ekta vorveður síðust daga og við erum búin að viðra okkur vel.

Ummæli vikunnar komu fram í fyrsta viðtali í Kastljósinu í gær, „Þetta er ríkisstjórnin“

Annars hef ég ekki frá neinu að segja.

Vagn – tjékk

apríl 21, 2008

Eftir 6 tíma barnavagnaskoðunarmaraþon pöntuðum við loksins vagn í dag. Þessi er með öllum þeim fídusum sem við viljum hafa og passar ágætlega inn í fjárhagsramma heimilisins. Ég vona bara að þetta slái á draumfarirnar því þær eru jafnvel enn leiðinlegri en bloggfærslur um sama efni. Aumingja Helgi Gnýr var með í búðaferðinni, enda ekki um annað að ræða meðan á verkfalli stendur. Hann var nú að verða soldið pirraður á þessu en stóð sig samt eins og hetja. Tíminn náttúrulega líður EKKI meðan maður er að bíða eftir foreldrum sínum í svona búðum. Til að brjóta upp leiðindin fórum við á McDonalds til að seðja hungrið eftir mjöög gott fjögurra mánaða hlé og svo fengum við okkur ís síðar.

Mýstungurnar frá því um daginn jöfnuðu sig en nú er ég komin með þvílík þykkildi í staðinn. Ég er svo óreynt stungufórnarlamb að ég skil bara ekkert í þessu. Ef ég hefði ekki þessa gríðarlegu sjálfstjórn væri ég búin að klóra mig inn að beini.

Fyrst barnavagnsmálum er bjargað þá er þetta nýja áhugamálið. Þessir pokar líta bara svoo notalega út.

Úlpulaus

apríl 20, 2008

Í dag var fyrsti úlpulausi dagurinn hjá okkur HG. Valdimar er svo harður nagli að hann er löngu farin að vera bara á góðri peysu. Það fór í  16 stiga hita í dag og það var bara sól og yndislegt veður. Vorum úti í garði þar sem HG lék sér við strák í næsta stigagangi. Gaman að geta loksins leikið við e-n úti í garði. Sá strákur er með honum á leikskólanum og er líka að byrja í sama skóla í haust (ef haust skildi kalla, 14. ágúst). Við bökuðum svo muffins og skelltum kjúkling í ofn. Valdimar kom óvænt snemma heim sem mér finnst alltaf jafn gaman. Svo var bara svo yndislegt veður að við drifum okkur bara út í smá kvöldgöngu eftir matinn. Við erum sem sagt búin að viðra okkur vel í dag, veitir ekki af.

Ég vek svo athygli á því að kjúklingurinn sem við borðuðum var danskur (eins og allir þeir sem við höfum borðað síðan við fluttum). Heilsan er samt með besta móti ennþá. Hann kostaði 25 danskar krónur. En maður er auðvitað með hjartað í buxunum að borða svona hættulegan útlenskan mat ég viðurkenni það alveg.

Á messu

apríl 19, 2008

Fyrir svona tveimur vikum fór ég alveg hamförum á netinu og pantaði alls konar svona ókeypis barnakynningarpakka hér og þar. Hjá Babysam, Libero, Pampers og Matas. Nú er allt komið í hús nema einn og Valdimari hafði á orði að það væri eins og ég hefði verið á messu. Mjög skemmtilegt orð yfir svona stórar sýningar finnst mér.  Það eru sem sagt alls konar litlar prufur af hinu og þessu flæðandi. Þar á meðal 99,95% lyktarlaus bleyjutunna (ekki beinlínis prufa), samfella og lífrænn Hipp barnamatur sem rennur út árið 2009 (ég fæ það nú ekki alveg til að passa samt, að hann sé lífrænn með eilífan endingartíma). Hver veit nema þetta barn muni smakka svoleiðis. Það hefur HG nefnilega ekki gert.

Í kvöld var ýsa í matinn. HG sagði svona 20-30 sinnum meðan á máltíð stóð að þetta væri uppáhaldsmaturinn hans.

Þreytandi næturvinna.

apríl 19, 2008

Ég var alveg hrikalega þreytt þegar ég vaknaði í morgun. Alla nóttina dreymdi mig barnavagna. Ég var að skoða barnavagna og finna út hvaða fídusar væru á hverjum, hvað fylgir með hverjum, prófa að leggja þá saman o.s.frv. Svo fór ég í Babysam núna eftir hádegið (í raunheimi) og ég var eiginlega alveg jafn ringluð í þessu og keypti auðvitað ekki neitt. Eða jú, nú á ég brjóstahaldara sem ég get andað í, sem mér finnst vera plús. Svo fór ég nú í nokkrar skóbúðir líka en keypti ekkert. Var samt næstum því búin að kaupa mér gullskó og glansandi bleika skó handa Dagbjörtu. Ef hún hefði verið með þá hefði ég líklega látið verða af þessu. Annars er ég að verða soldið skotin í svona Vagabond skóm. Þeir eru svo rosalega mjúkir og þægilegir. Hugsa að ég skelli mér bara á svoleiðis við tækifæri. Svo er auðvitað að ganga í garð tími tábandaskónna. Verð nú að fá mér eina til tvenna svoleiðis.

Í gær var store bededag sem er almennur frídagur hér. Honum var ekki varið í bænahald hér á þessum bæ frekar en öðrum dögum.

Síðustu dagar hafa verið fekar tragískir á vettvangi fiskabúrsins. Allir dóu á endanum og svo braut ég kúluna í þokkabót í gær þegar ég var að þvo búrið. En engar áhyggjur. Barnið fær auðvitað óréttlætið bætt. Þeir feðgar fóru í leiðangur í dag og málunum bjargað.