Archive for mars, 2008

Umburðarlyndi

mars 30, 2008

Valdimar var að æfa sig aðeins að spila Í höll Dofrans á gítarinn og HG sagði „jaaá pabbi… það er allt í lagi þó þú ruglir soldið með þetta lag.“

Út af rannsókninni sem ég er með í á ég nokkurra mánaða skammt af vítamíni fyrir óléttar konur. Það er líka tilvalið að byrja að taka það þremur mánuðum fyrr ef fólk er mjög skipulagt. Bara ein tafla á dag (ekki þrjár eins og ráðlagt var með e-ð á Íslandi þegar HG var í bumbu). Þannig að ef e-r hefur áhuga þá stendur þetta til boða hverjum sem vill. Fullum trúnaði heitið:)

Sumartíð

mars 30, 2008

Ég sem var búin að bíta í mig að það yrði skipt yfir í sumartímann eftir mánuð. Þá er það bara í dag. Þessi tímaskipti fara alveg hrikalega í taugarnar á mér því líkamsklukkan mín fylgir ekki eftir og ekki hjá HG heldur þannig að við vöknum þá bara klukkutíma síðar í 6 mánuði sem hentar ekki alveg nógu vel. Svo frétti ég það ekki fyrr en í gærkvöldi að tíminn væri að færast til.

Í gær fór ég í skólann. Hjólaði niðureftir í rigningu og frekar miklum vindi. Ægilega lekker þegar ég kom á leiðarenda. En það var allavega gaman í skólanum. Maður fær svona nýjan kraft við að hitta samnemendurna og kennarana. Fór svo út að borða með þeim og fórum síðan í leikhús á Den 13. nævning – Terrorsagen fra Vollsmose. Lopinn var nú ansi mikið teygður en prýðilegt að kíkja í leikhúsið.

Annars hef ég hugsað mér að sjá þessa Fitna mynd í dag. Hef nú heyrt að hún sé frekar slöpp en ég vil nú bara sjá þetta með eigin augum. Ef þetta væri ekki stuttmynd myndi ég líklega ekki nenna að leggja það á mig. Held að höfundurinn hafi aðeins misreiknað sig því eftir viðtölum að dæma þá virðist hann hafa stólað á að fá stuðning Dana. En mér sýnist þeir nú ekkert vera of hrifnir.

Annars bara voða gott vorveður úti. Vonandi að vetrarveðrið láti ekki sjá sig aftur og ég geti farið að taka fram léttari klæðnað. Ekki bara er ég ofurþreytt á úlpunni minni heldur er ég eins og hvalur í henni.

Lýsi

mars 27, 2008

Þá er lýsið komið í hús. Þá getur HG loksins fengið sinn daglega skammt aftur eftir líklega eins og hálfs mánaðar hlé. Atli sem sagt kom með sendingu frá Dagbjörtu og ég fór loksins að sækja í dag. HG fór í pössun til þeirra meðan ég var í leikfimi og lék sér úti með krökkunum allan tímann. Ég öfunda þau ekkert smá af þessum lokaða garði. Ég settist svo aðeins að spjalla sem er allt of langt síðan ég hef gert sem var voða gott (enda ennþá blá og móð eftir púlið), ekki síst þar sem dregnar voru fram íslenskar súkkulaðirúsínur.

Tyksak

mars 26, 2008

Eftir sónarinn í morgun lítur út fyrir að þetta verði bolla sem flytur inn til okkar í sumar. 1700 gr núna mitt á milli 29. og 30. viku. Samkvæmt bókinni er meðaltalið 1300 gr. Ég er nú ekki minna stressuð að reyna fæðingu eftir þessar fréttir en svo sem heldur ekkert mikið meira. Sykurþolsprófið kom líka vel út sem er bara gaman. Það gekk mun betur að drekka þennan vökva núna en síðast, tók kannski 2-3 mínútur núna en örugglega korter síðast. Þvílíkt ógeð. Valdimar kom með HG út á spítala til að sjá sónarinn. Það var voða gaman að hafa hann með og hann brosti út að eyrum allan tíman. Gaman að hann geti séð aðeins hvernig þessar skoðanir ganga fyrir sig. Ekki færi maður heldur að taka hann með á fyrri stigum þannig að það er gaman að þessi rannsókn skuli gera það mögulegt.

God Påske!

mars 23, 2008

Páskagrein

Það væri synd að segja að fegurð eggjana okkar komi vel fram á þessari mynd. Ætla nú samt ekkert að spara hana. Miklu krúttlegri er þessi páskaungi sem tengdó heklaði. Hún er svo ótrúlega flink í að hekla skraut fyrir hinar ýmsustu hátíðir og tækifæri, þetta er bara eitt sýnishorn.

Páskaungi

Hér er svo sería af páskaeggjaleit og áti frá því í morgun.

Páskaeggjaleit1 1

Páskaeggjaleit 2

Páskaeggjaleit 3

Páskaeggjaleit 4

Byrjað að raða  sig

Hann leitaði sem sagt að einu af íslensku páskaeggjunum sem komust heil á leiðarenda og svo einu frá okkur sem er svona pappaegg sem maður velur sjálfur hvað fer inn í. Það gekk nú bara þokkalega í leitinni en hann var nú orðin frekar pirraður á því að finna seinna eggið. En það gekk á endanum. Við mæðgin fengum okkur hollan hafragraut í morgunmat áður en ráðist var á páskaeggin. Í eggið frá okkur keypti ég bara pínulítið páskanammi og svo fígúrur, mjög í samræmi við tilefnið; draug, kentár og þríhöfða hund. Okkar maður var mjög ánægður með það. Akkurat það sem hann langaði í sagði hann:) Svo erum við bara búin að narta í egg í allan dag og höldum því væntanlega bara áfram.

Tapað fé

mars 20, 2008

Í gær gleymdi ég að taka tíkallinn aftur úr innkaupavagninum í Føtex. Sem ég var að ganga frá vörunum í hjólið mitt sá ég í fyrsta skipti fólk koma í búðina sem var með bílstjóra. Vel til haft par sem sat í aftursæti á glæstum benz og bílstjórinn opnaði fyrir frúnni, karlmanninum tókst að komast hjálparlaust út. Bílstjórinn keyrði síðan í burtu þegar herrann hafði tilkynnt að þau myndu láta vita þegar þau væru á kassanum. (Þetta „gerðist“ allt beint fyrir framan nefið á mér, ekkert óvenju hnýsin.) Nú þau fóru svo að ná sér í kerru og ég þori að veðja að þau lentu akkurat á kerrunni sem þau þurftu ekki að borga fyrir af því að e-r auli hafði gleymt peningnum í, heppnu svín. Ég var nú samt auðvitað alveg grunlaus um að ég hefði gleymt þessum peningi þar til ég þurfti á honum að halda í næstu búð. Við erum að tala um að sölugengi á danskri krónu í gær var 16,79 íslenskar krónur. Margfaldið það með 10!

Sumir smámunir eru bara stærri en aðrir.

Þroskamerki

mars 19, 2008

Við HG höfum það mjög notalegt núna, vorum að fá okkur glænýtt og heitt brauð úr bakaríinu með túnfisksalati og horfa á Nemó. Mér finnst það mjög mikið þroskamerki að drengnum skuli finnast það gott þar sem hann er ekki mikið hrifin af mat sem er svona blandað saman.

Í morgun erum við mæðginin búin að fara leiðangur á bókasafnið í skólanum að sækja bækur. Fínt að fá sér smá rúnt með strætó. Á eftir drífum við okkur í búðina og ætlum svo að baka súkkulaðiköku (bestu í heimi) og pizzu. HG ákvað að það yrði afmælismaturinn í kvöld fyrir pabba sinn. Svosem ekkert slor að fá gæðapizzu með parmaskinku, rukola og kirsuberjatómötum. Fyrir viðkvæma verður þó ein með skinku til vara.

…og eitt til …eða tvennt.

mars 18, 2008

Skildi þarna vera um að ræða prófdómarann við bílprófið mitt á sínum tíma? Sá var frekar pirrandi. Snerti mig nú ekki en klæmdist hálfpartinn allan tíman, a.m.k meðan hann var í bílnum. Prófið mitt nefnilega snerist um það að skutla honum e-ð og keyra svo til baka. Engar alvarlegar spurningar um umferðarreglur eða bílinn.

Mér finnst soldið „gaman“ að velta fyrir mér hvernig umræðan um efnahagsástandið á Íslandi væri ef við völd væri vinstristjórn. Það verður að viðurkennast að það er frekar þægilegt að vera ekki að borga af húsnæðisláni núna og kaupa bensín fyrir afganginn.

Páskapakkar

mars 18, 2008

Annars er ég ekkert almennt svona pirruð eins og í síðustu færslu, bara mjög ánægð með lífið. Í gær kom pakki frá mömmu pabba og Dagbjörtu með risa páskaeggjum á línuna. Þannig að við erum mjög vel búin undir páskana, enda kom annar pakki síðasta föstudag sem innihélt líka páskaegg ásamt gjöfum til afmælisbarns morgundagsins og barnsins. Svo nýt ég auðvitað mjög góðs af harðfisknum og Prins pólóinu sem var hluti innihaldsins. Alveg hrikalega gaman að fá pakka. Bara verst að það kostar hvítuna úr augunum að senda þá. Takk fyrir okkur!
Við máluðum á egg síðasta föstudag sem prýða nú stolna grein úr garðinum sem stendur út í glugga. Gullfallegt páskaskraut. HG hafði nú ekki neina gríðarlega þolinmæði við málunina en mér fannst þetta voðalega gaman. Maður ætti auðvitað að gera þetta á hverju ári. Það var alveg ferlega fyndið að fylgjast með HG stinga á þau og blása úr þeim. Hann var bara ótrúlega lúnkinn við þetta. Bakaði svo bestu sjónvarpsköku sem ég hef smakkað (skil ekki af hverju Valdimar minntist ekkert á hana í mjög ítarlegri yfirferð föstudagsins). Henni var slátrað á sólarhring. Verð að skella í svona aftur fljótlega.

Við hjóluðum svo í dýragarðinn á laugardaginn, fínt að kíkja þangað aðeins. Mér finnst HG svo ótrúlega duglegur að hjóla þangað. Þarf ekkert að taka neinar pásur eins og hann gerði mjög títt þegar hann var að byrja að hjóla í leikskólann frá Jagtvej á sínum tíma.

Ég var nú bara alveg uppgefin eftir þessa mjög svo aktívu daga þannig að sunnudagurinn var algjör letidagur hér heima hjá okkur HG meðan Valdimar fór að púla í hálfgerðri skátaferð á vegum vinnunnar. Það fór reyndar gríðarlegur tími í það að koma spottum í eggin. Þvílíkur höfuðverkur að þræða þetta. Þarf e-ð að endurhugsa það fyrir næstu páska.

Lítið fyrir peninginn

mars 18, 2008

Eftir langt pirringslaust tímabil (kannski meira tímabil þar sem ég hef sætt mig við) út í leikskólann er ég ekki alveg sátt núna. Núna eru svo margar fóstrur í fríi á leikskólanum og engin staðsett uppi á deildinni hans HG að mér líður bara illa að skilja hann eftir þar. Þannig að ég er farin að sækja hann núna og ætla ekki að fara með hann á morgun. Það verður þar af leiðandi ekki mikið úr lestri eða skrift hjá mér fram í næstu viku. (Ætla nú samt að standa við einn skilafrest helst fyri þriðjudag).

Og þar sem ég ætla að drífa mig að sækja hann núna strax hlýfi ég ykkur við pirringnum út af öðru skipulagi á þessum leikskóla eins og um aldursskiptingu á deildir, og skipulag starfsins.