Ég sem var búin að bíta í mig að það yrði skipt yfir í sumartímann eftir mánuð. Þá er það bara í dag. Þessi tímaskipti fara alveg hrikalega í taugarnar á mér því líkamsklukkan mín fylgir ekki eftir og ekki hjá HG heldur þannig að við vöknum þá bara klukkutíma síðar í 6 mánuði sem hentar ekki alveg nógu vel. Svo frétti ég það ekki fyrr en í gærkvöldi að tíminn væri að færast til.
Í gær fór ég í skólann. Hjólaði niðureftir í rigningu og frekar miklum vindi. Ægilega lekker þegar ég kom á leiðarenda. En það var allavega gaman í skólanum. Maður fær svona nýjan kraft við að hitta samnemendurna og kennarana. Fór svo út að borða með þeim og fórum síðan í leikhús á Den 13. nævning – Terrorsagen fra Vollsmose. Lopinn var nú ansi mikið teygður en prýðilegt að kíkja í leikhúsið.
Annars hef ég hugsað mér að sjá þessa Fitna mynd í dag. Hef nú heyrt að hún sé frekar slöpp en ég vil nú bara sjá þetta með eigin augum. Ef þetta væri ekki stuttmynd myndi ég líklega ekki nenna að leggja það á mig. Held að höfundurinn hafi aðeins misreiknað sig því eftir viðtölum að dæma þá virðist hann hafa stólað á að fá stuðning Dana. En mér sýnist þeir nú ekkert vera of hrifnir.
Annars bara voða gott vorveður úti. Vonandi að vetrarveðrið láti ekki sjá sig aftur og ég geti farið að taka fram léttari klæðnað. Ekki bara er ég ofurþreytt á úlpunni minni heldur er ég eins og hvalur í henni.