Archive for febrúar, 2008

Merkilegur dagur

febrúar 29, 2008

Ég held ég hafi ekki bloggað nógu lengi til að hafa áður bloggað 29. febrúar. Verð að nota tækifærið núna og kemst þá kannski í gang aftur. Er byrjuð að leita að lesefni fyrir lokaverkefnið mitt. Ætla að skrifa um aktiv medborgerskab (sem ég hef því miður ekki hugmynd um hvernig útleggst á íslensku) og óhjákvæmilega dregst fjölmenningarstefna þar inn í. Er því búin að hanga inni á gagnagrunnum síðustu daga. Og ég er ekki að ljúga þegar ég segi að það er ekkert sem þreytir mig meira við tölvuna en að leita í gagnagrunnum. Aldrei að vita nema ég nái að lesa soldið í dag líka í bland við að ganga frá þvotti. Fór í leikfimi í gær og það var dásamlegt. Þarf að fara að vera duglegri að drífa mig út að ganga og hjóla í skólann. Er að vonast til að vetrarrigningin og vindurinn fari að taka sér hlé núna þegar fyrsti vormánuðurinn gengur í garð á morgun.

Eins og smábarn

febrúar 18, 2008

er ég nú komin á sýklalyf við eyrnabólgunni. Hef ekki farið á sýklalyf síðan ég var með einkyrningasótt 1997. Svo tekur maður bara verkjalyf eins og maður fái borgað fyrir það. Þá líður manni allavega skikkanlega.

Við fundum okkur til gleði í fyrradag innst í skúffu gamalt Nezeril. Óreynd sem ég er logsveið mig undan því. En það virkaði a.m.k. Soldið kaldhæðnislegt samt að stundum er ég bara of stífluð til að geta sogið það upp í nefið.

Þessi vika er vetrarfrísvika. Við vorum búin að ákveða að HG fengi bara frí enda lítið um að vera í leikskólanum og við gætum alveg eins reynt að gera e-ð skemmtilegt hér heima og í nágrenninu, þó Valdimar sé reyndar að vinna alla vikuna. Vonandi bara að við/ég förum fljótt að hressast svo við getum drifið okkur út.

Langdregið

febrúar 18, 2008

Á föstudaginn varð HG loksins hitalaus. Hápunktur síðustu viku hjá honum var að fara til læknis á fimmtudagskvöldið eftir að hafa verið mjög ólíkur sjálfum sér (sjá Valdimar). Hann hresstist bara allur við það að fara þangað. Ég hins vegar óhresstist bara á fimmtudaginn og svaf svo ekki dúr (það er nú að verða soldið löng og leiðinleg saga). Fór í mæðraskoðun á föstudagsmorguninn sem gekk mjög vel, blóð, piss og blóðþrýstingur allt í lagi. Ég hins vegar ætlaði varla að meika þetta og er eiginlega bara búin að liggja í rúminu síðan. Í gær byrjaði svo eyrnabólga að plaga mig þannig að ég er búin að lifa á kódimagnyl í hálfan sólarhring. Það verður fróðlegt að sjá hvað Jan ætlar að gera fyrir mig á eftir. Þegar ég sagði honum frá endalausa kvefinu mínu ákvað hann að panta nefsprey sem ég þarf að bíða eftir í viku. Vissulega ekki langur tími miðað við þá fjóra mánuði sem eftir eru til að nota það, en samt.

Í fyrradag byrjaði ég að svitna á efri vörinni í fyrsta skipti. Stórfurðulegt.

Svo er ég að verða þunglynd á því að hafa næstum ekki farið neitt út í viku.

Sveittur kollur

febrúar 13, 2008

Það er góðs viti að HG er orðinn soldið sveittur á kollinum núna eftir að hafa sofið í smá tíma. Það er venjan að hann svitnar alveg hrikalega á höfðinu þegar hann er sofnaður en þegar hann er veikur þá svitnar hann ekki. Þannig að ég hugsa að hann sé að skríða saman þó hann hafi nú verið ansi heitur áður en hann fór að sofa. Vonandi fer þessu bara að ljúka. Það er alveg ferlega leiðinlegt að vera lokaður svona inni. Fékk mér nú samt smá göngutúr út í búð fyrir kvöldmatinn til að viðra mig aðeins.

Eftir smá aðstoð frá Atla um daginn erum við alveg búin að sjá við því hvað Danirnir eru seinir að sýna þáttaraðir sem maður þarf að sjá. Við borgum dágóða summu á ári til DR í sjónvarpsskatt þannig að ég hef ekki hið minnsta samviskubit. Svo erum við búin að liggja yfir Næturvaktinni undanfarið. Þvílíkt góðir þættir þar á ferð. Ferlega pirrandi karakterar þar á ferð en ótrúlega fyndnir. Það er bara hálf tómlegt að vera búin að sjá alla þættina.

Það sem ég er hins vegar ánægð með í danska sjónvarpinu er að það er ekki verið að teygja lopann þar eins og tíðkast í því íslenska. Þeir afgreiddu júróið á þremur kvöldum (völdu reyndar arfaslakt lag) og eins og X-faktorinn hefur gengið lítur út fyrir að það eigi ekki að vera neinir upprifjunarþættir eins og tíðkaðist í íslenska Idolinu. Það voru nú líka einu vonbrigðin með næturvaktina að þar var heill þáttur notaður í upprifjun. Til hvers?

Endalaust hor

febrúar 12, 2008

Í dag erum við mæðginin bara búin að vera heima þar sem HG náði sér í hita síðustu nótt. Hann á e-ð voða erfitt með að hrista þetta kvef af sér. Ég þurfti nú að beita nokkrum fortölum í morgun til að fá að rassmæla hann. Það er svo langt síðan við höfum þurft nota slíkan mæli að hann man hreinlega ekkert eftir því. Ég var reyndar líka búin að gleyma því að við eigum e-n eyrnamæli sem reyndar er nú ekki eins nákvæmur og góður og rassmælir. En þetta tókst nú vel á endanum. Það er nokkuð ljóst miðað við hitan í kvöld að hann er ekki á leið í leikskólann á morgun heldur. Dagurinn hefur þó ekki verið alveg tíðindlaus heldur tók ég mig til eftir að við vorum búin að teikna aðeins og tók til í töskunni þar sem allir litir eru geymdir og yddaði alla trélitina. Það er sko ekki verkefnaskortur á þessu heimili. Eftir aðfarirnar við yddið er ég með fáséða blöðru á fingurgómi hægri þumalfingurs.

Sem betur fer hafa síðust dagar verið skemmtilegri fyrir HG þar sem við drifum okkur í dýragarðinn á sunnudaginn eftir mjög langt hlé. Þangað hjóluðum við öll, hver á sínu hjóli. Það er þó ljóst að HG fær mestu hreyfinguna út úr því þar sem hjólin á hans hjóli eru svo lítil að hann þau fara örugglega 100 hringi meðan okkar fara þrjá. En það var allavega fínt að skella sér þangað í góða veðrinu.

Í gær fékk hann svo vin sinn úr leikskólanum í heimsókn. Þeir léku sér og máluðu með vatnslitum í um tvo tíma þar til mamman kom að sækja vininn. Þá var hann ekki alveg á þeim buxunum að fara. Það var svo ekstra mikil pressa á mér að tala dönsku allan tíman. Ég mátti ekki einu sinni segja „já“ í staðinn fyrir „ja“ án þess að sett væri út á það.

Annars kom Valdimar bara heim snemma í dag þannig að við fengum þessa dýrindis súpu í kvöldmatinn. Mér finnst það algjör lúxus þegar hann er að vinna svona stutta daga. Líka skemmtilegra fyrir HG aðeins að hitta pabba sinn meira en í nokkrar mínútur á morgnana eða á kvöldin ef hann nær því þá. Stundum líða einn til tveir sólarhringar á milli og það finnst okkur öllum mikið.

Innipúkar

febrúar 9, 2008

Á þessum dýrðardegi erum við Helgi Gnýr bara búin að hanga inni í algjörri leti. Við erum þó búin að klæða okkur, þó það sé ekki langt síðan og við stefndum nú lengi vel að því að tékka á stöðunni hjá Þóreyju og co. Nei þá festist HG í tölvunni að skoða myndir af froskum. Svosem allt í lagi að hann æfi sig aðeins enda hefur hann ekki alist upp við tölvuna (meiri dvd maður, veit ekki hvort er skárra), enda erum við afar litlir tölvunördar foreldrarnir. Hann hefur samt alveg prófað Innipúkann og Pixeline en með frekar mikilli hjálp. En hann virðist nú e-ð vera að ná stjórn á músinni núna. Hef nú samt grun um að tölvur séu ekki hluti af náminu í núll bekk hérna þannig að það hvarflar ekki að mér að þröngva þessu upp á hann.

Það er svo ótrúlega gaman þegar HG segir manni frá draumunum sínum, stundum eru þeir auðvitað algjört rugl með exótískum dýrum og svoleiðis. Núna var hann að segja mér að hann hefði dreymt að hann var í heimsókn hjá Jóhanni frænda sínum „og hann átti bara heima rétt hjá, bara í sama húsi og við“. Smá óskhyggja greinilega að blandast þarna inn.

Óveður

febrúar 8, 2008

Ótrúlegt að sjá allar þessar óveðursfréttir. Síðan ég flutti til Reykjavíkur 1993 hefur mér aldrei fundist neinn alvöru vetur þar (alvöru vetur = mikill snjór og óveður) miðað við það sem maður var vanur að austan. Ég sakna þess nú ekki beinlínis en mig grunar að snjóaðdáandinn Valdimar sé soldið fúll yfir þessu. Ég er bara sátt við rólegheitaveðrið og 10 gráðurnar í dag.

Í kvöld var fyrsti x-faktor þátturinn í beinni útsendingu. Þar eru tveir þáttakendur sem ég hef séð, ein er mamma af leikskólanum (af annari deild reyndar) og hinn er þessi hér sem ég held að við höfum séð spila á strikinu í Árósum þegar við fórum þangað í ágúst 2006 með tengdó og Írisi og fjölsk. Kannski ekki beinlínis fólk úr nánasta umhverfinu en samt soldið skondið í 5 milljóna samfélagi, aðeins stærra en litla Ísland.

Pössunin í gær gekk svona líka vel, nema hvað að það var engin pössun fyrr en kl. hálf fimm en ekki kl. fjögur eins og þurfti. Honum var nú nokk sama um það og var bara sáttur við að vera skilinn eftir hjá e-i mömmu og dóttur hennar þarna inni. En svona geri ég ekki aftur. Mér finnst það bara svo arfaslakt skipulagsatriði að geta ekki haft leikfimina passandi við barnapössunina – og er reyndar búin að láta það í ljós oftar en einu sinni. Annars var leikfimin frábær eins og vanalega.

Snyrtipinni

febrúar 7, 2008

Fimmtán mínútur voru notaðar í það í morgun að skella greiðslunni upp. Á meðan notaði ég tímann og vaskaði upp. Eins og sést var hann mjög sáttur við árangurinn. Ekki spillti fyrir að þegar við komum í leikskólann var verið að andlitsmála. Vinkinu til mín var því fórnað fyrir stað í röðinni.

Ánægður með hárgreiðsluna

Í dag er svo leikfimidagur hjá mér. HG ætlar að prófa að fara í barnapössunina sem er á staðnum. Ég á nú eftir að sjá það ganga upp enda hefur ekki gefist vel að skilja hann skyndilega eftir á ókunnum stað. Eigum mjög slæmar minningar úr boltalandinu í Ikea fyrir nokkrum árum hvert hann var æstur að fara en höndlaði svo ekki að vera fjarri okkur og hélt bara að við kæmum aldrei aftur. Það var hræðilegur svipur á honum þegar við komum aftur til hans, sem ég hef aldrei séð fyrr eða síðar og síðan brotnaði hann bara saman þegar hann kom til okkar. Vona nú samt það besta. Þórey og Atli hafa alltaf passað hann þegar Valdimar er að vinna á þessum dögum en þau verða nú greyin að fá frí svona inn á milli.

Það er búið að vera svo yndislegt veður í dag og í gær að það er beinlínis vorveður. Litlu vorblómin sem líta út eins og míní baldursbrár eru farin að láta sjá sig og það er komið brum á trén.

Litla systir

febrúar 6, 2008

mín er orðin 25 ára. Hugsa sér. Til hamingju með daginn Dagbjört! Væri nú alveg til í að vera komin til hennar í e-ð góðgæti.

Ákvað að hafa þvottadag í dag. Ég er alveg í skýjunum yfir þvottakerfinu hérna. Maður pantar sem sagt þvottahúsið og getur þvegið tvær til þrjár vélar í einu og þurrkað svo úr þeim öllum í einu í einum risa þurrkara. Alveg hreint dásamlegt. Kvíði þeim tíma þegar maður þarf að venjast normal þvottaaðstæðum. En það er nú enn e-ð í það.

Hringdi

febrúar 5, 2008

í afmælisbarn dagsins áðan, hana Salnýu. Æðislegt að heyra aðeins í henni. Ef það væri ekki fyrir það að vera ofur-mál að pissa og vera orðin glorsoltin hefðum við örugglega getað spjallað fram á nótt. Verðum bara að vera duglegri á msn-inu;) Er reyndar almennt arfaslök þar og ekki dugleg að spjalla. Tyrki sem er með mér í skólanum tekur það mjög persónulega að ég skuli aldrei fitja upp á samræðum við hann.

Svo hefði amma orðið 99 ára í dag. Alveg magnað hvað margar konur sem ég lít upp til og hef mikið álit á eiga afmæli þessa dagana. Þið vitið hverjar þið eruð.

Valdimar er komin í svaka stuð að klippa til videoin, eða hreyfimyndirnar eins og ég kýs að kalla þær, sem hafa safnast upp síðan í sumar. Mér finnst hann ofurduglegur í þessu, klippir inn tónlist við og allt hvað eina. Ég tel mig vera þolinmóðari aðilan í okkar sambandi en þessa vinnu held ég að ég myndi aldrei hafa þolinmæði í. Smá sýnishorn er að finna hjá honum frá gærdeginum.