Archive for janúar, 2008

Rólegt

janúar 30, 2008

Voða lítið að frétta. Valdimar útlistaði síðustu daga ágætlega þannig að ég nenni ekki að endurskrifa það. Nema kannski bara það að maturinn sem hann eldaði var alveg hrikalega góður á sunnudaginn (eins og alla aðra daga reyndar). Og skyrkökuna/desertin væri ég alveg til í að borða á hverjum degi.

Við HG vorum bara heima í dag. Hann var nú ekki með hita en það mikið hor að það er varla hægt að bjóða upp á það í leikskólanum. Mjög rólegur dagur í dag sem sagt og ég ekkert búin að fara út úr húsi. Er búin að vera almennt kærulaus síðustu daga, dorma ef það er hægt og þess á milli lesa danskan krimma sem ég keypti fyrir jólin en byrjaði ekki á af viti fyrr en á laugardaginn.

Nú þarf ég hins vegar að fara að ákveða af alvöru hvað ég ætla að skrifa um í lokaverkefninu. Er eiginlega komin að þeirri niðurstöðu að byrja á því og geyma hitt. Kennslan þetta misserið snýst um lokaverkefnið þannig að ég ætla bara að reyna að fylgja því og salta hitt svo bara fyrir mjólkurþokuna síðar.

Og: Vei!

Prófdagur

janúar 26, 2008

Þá er þetta blessaða próf yfirstaðið. Það er gaman. Þá get ég farið að einbeita mér að næsta verkefni sem er að skrifa verkefni um „sammenhængskraft“. Prófmorguninn byrjaði nú alveg glimrandi. Fór eldsnemma á fætur eftir lítinn svefn (eins og tíðkast hjá mér fyrir próf), fékk mér morgunmat, las smá, tók mig til og dreif mig svo bara af stað. Tók leigubíl í skólann og var komin svona hálftíma fyrr en ég átti að byrja. Er bara róleg og fer aðeins á snyrtinguna og treð hönskunum mínum í framhólfið á bakpokanum. Kemst að því að ég hef óvart tekið símann hans Valdimars með (fékk nefnilega bakpoka lánaðan hjá honum). Ég var nú hálf miður mín yfir því þar sem meiningin hjá mér var að hafa samband við hann eftir prófið. Nú svo opna ég bakpokann. Þá er ég bara með kolvitlausan bakpoka. Allar bækur og glósur sem ég þurfti að hafa í prófið höfðu sem sagt orðið eftir heima. Ég gat því ekki annað gert en að hringja aftur á leigubíl og fá mér góðan rúnt fyrir prófið. Leigubílstjórinn var mjög hjálplegur og braut bara örfáar umferðarreglur á leiðinni. Þannig að ég náði að mæta í prófið á réttum tíma.

Ég fór svo í verslunarmiðstöðina (sem er ekki mitt uppáhald) til að reyna að finna föt sem passa á mig í H&M. Það vantar nefnilega alveg bumbufötin í búðina niðri í bæ. Ég fann allavega e-ð þannig að ég get hætt að ganga með gallabuxurnar á hælunum hér heima.

Á morgun ætlum við loksins að bjóða Þóreyju og co í mat. Þau eiga nú aldeilis það og meira til skilið eftir alla hjálpina.

Eftir kvöldmat er HG búin að hamast við vínarvalsa Strauss. Mjög skemmtilegt. Hann þurfti að fækka fötum í látunum. Held að aðdáun hans á þessari tónlist sé eingöngu Tomma og Jenna að þakka enda ákaflega vönduð tónlist undir þeim teiknimyndum. Nú sitja þeir feðgar og horfa á Barbapabba á þúskjá, ýmist á frönsku eða ensku.

Í tilefni dagsins eru svo nokkur snilldar lög. Smá nostalgíukast. Þúskjárinn sér nú alveg við því að Valdimar setti diskana mína frá þessu tímabili í óvirka safnið í fjargeymslu. Ég skora á þann sem var 13 ára árið 1990 og átti ekki e-ð af þessu sem uppáhaldslög að gefa sig fram!

Mér fannst þetta jafnvel enn betra. Spurning hvort Úrsúla hafi sett þennan í fjargeymslu;)

Og þetta fínt líka

Svo er það þessi snilld

Man reyndar ekki eftir að nokkur hafi deilt með mér aðdáun á þessari hljómsveit.

Léttara hjal

janúar 24, 2008

Þessi strákur er að fara að byrja í skóla í sumar, nánar tiltekið þann 14. ágúst.

 

19.01.2008

 

Þess vegna fórum við í gær í heimsókn í 0-bekkinn (børnehaveklassen) í gær og í dag fórum við að skoða skóladagheimilið (skolefritidsordningen) í Vestre skole. Okkur leist bara vel á þetta og HG er spenntur að byrja í skóla. Á morgun mun ég því fara og skrá hann.

Játning

janúar 24, 2008

Ég man hreinlega ekki hvort ég kaus F-listann eða VG í síðustu borgarstjórnarkosningum. Svona er líf flokkaflakkarans (sem er þó oftast ekki á neinu flakki). Kannski hef ég sagt e-m frá því sem man það. Ef ég nú hef kosið F-listann þá get ég sagt að ég er ekki hrifin af því undirferli og valdagræðgi sem oddviti listans hefur sýnt undanfarna viku.

Og hvers konar siðferðislegt uppheldi hefur þessi kona (og félagar hennar) fengið sem tjáir sig í þessari frétt? „Ef e-r lýgur og svíkur þá má ég það líka. Ef e-r er hálfviti þá má ég það sko alveg líka“. Hvar er metnaðurinn til að sýna reisn og heiðarleika?

Ég hafði vott (ég endurtek vott) af áliti á þessum manni sem hann hafði áunnið sér á löngum tíma. Eftir að hafa ráðið næst næst næst hæfasta manninn sem héraðsdómara er sá vottur gjörsamlega horfinn. Segjum nú að þetta hefði verið kona (je ræt) þá hefði nú e-r frjálshyggjumaðurinn látið heyra í sér að verið væri að velja konu bara til að velja konu. Svona veiting er svo grófleg mismunum að ég á ekki til orð.

Ég játa að ég hræðist þjóðfélag þar sem stjórnmálamenn líta umboð kjósenda svo léttvægum augum. „Ég hef vald, ég á það og ég ræð“

Svona upp á djókið þá ætla ég að gerast spákona.

– Sá sem sagði af sér í dag mun snúa aftur fyrr eða síðar í feita stöðu í flokknum eða á vegum flokksins.

– Ríkisstjórnin mun ekki lifa út kjörtímabilið.

Léttir

janúar 22, 2008

Sónarinn var alveg glimrandi. Allt var á sýnum stað og ekki grunur um að e-ð sé að á þessu stigi. Svo fengum við svona mynd í þrívídd sem ég vissi ekki að væri gert í svona rútínutékki. Ótrúlega gaman að sjá þannig mynd af barninu. Við fengum ekki að vita kynið. Það er bara e-n veginn enginn æsingur í okkur að vita það fyrirfram. Fyrir mig er bara gaman að það komi í ljós á endapunktinum. Þannig að duglegar prjónakonur verða bara að sýna ró;)

Svo fór ég að ræða við lækni – og læknanema – um það hvernig fæðingin eigi nú að fara fram. Þær kíktu á pappírana, aðallega e-ð skema sem er notað. Þær virtust ekki hafa miklar skoðanir á þessu þannig að ég lýsti bara mínum hugmyndum um þetta eftir að hafa rætt það ítarlega við dr. Dagbjörtu en hún hafði misnotað aðstöðu sína töluvert og ráðfært sig við færustu sérfræðinga. Ég ætla sem sagt að láta reyna á eðlilega fæðingu en ef e-ð fer að ganga hægt og erfiðlega þá bara skera. Þetta samþykktu þær bara, ekkert mál.

Lélegur sjónvarpssjúklingur

janúar 21, 2008

Ég gleymdi að horfa á eina þáttinn sem ég horfi á um þessar mundir. Það er glatað. Nú þarf ég að bíða fram til sunnudags, en þá er hann endursýndur mjög seint. Frekar pirrandi.

Ég er búin að hnerra mun minna í dag en um helgina og er farin að hafa betri stjórn á horinu. Ég held ég hafi bara ekki hnerrað svona mikið á ævinni, samt hnerra ég held ég yfir meðallagi oft. Það reyndar hjálpaði ekki í gær að við HG fórum í afmæli til stelpu sem var með honum á leikskólanum en er flutt. Þar var feitur og loðinn köttur. Ég ætlaði nú varla að ná andanum undir það síðasta.

Eftir að vera alveg að missa trú á sunnudagskvöldinu eftir hræðilegan fótboltaþátt um daginn kom þessi fínasti þáttur í gær. E-ð segir mér að allir þeir sem sakna Ármanns muni kaupa „ljóða“bókina sér til huggunar.

Ókey

janúar 19, 2008

Þetta er bara mjög hefðbundið kvef sem hefur ágerst fram eftir degi. Gaman.Við HG fórum í hjólatúr. Kíktum á leikvöllinn í Munkemose sem er ekki eins nálægt okkur og hann var. Kíktum líka við í nammibúð og Føtex. Ætlaði varla að meika það með lekandi horið og hnerrandi gegnum búðina. Þetta er alveg ótrúlega spennandi.

Ofnæmi?

janúar 19, 2008

Eftir eilíft hor og hnerra í mánuð er ég farin að halda að þetta sé ekki neitt venjulegt kvef heldur sé ég kannski með ofnæmi fyrir e-u hérna í íbúðinni eða húsinu. Ég hef ekki séð kött hér á sveimi en velti því fyrir mér hvort e-r sé að stelast. Eða hvort þetta sé e-ð annað. Þetta er að verða alveg ferlega langdregið og pirrandi. Og eins og það sé ekki nóg að vera svona á daginn þá vakna ég iðulega um 4-5 á nóttunni og þarf að sníta mér og hnerra þessi ósköp með. Er að verða soldið þreytt á þessu.

Undanfarið

janúar 18, 2008

Það væri synd að segja að það væri mikið að gerast á þessari síðu. Heldur ekki í lífinu. Valdimar var í fríi um daginn og þá notuðum við tímann til að koma ýmsu fyrir þannig að það er mjög lítið eftir núna, en aðallega e-ð sem maður veit eiginlega ekkert hvað maður á að gera við. Það mun bara hverfa á sinn stað smátt og smátt.

Og talandi um að hverfa. Glöggir lesendur tóku eftir að bólusetningarskýrteini HG hvarf um daginn. Í gær og fyrradag var ég gleraugnalaus þar sem ég bara fann ekki gleraugun mín. Leitaði út um allt og Valdimar líka. Í gærkvöldi leit hann svo ofan í kommóðuskúffu sem er full af vetlingum og húfum. Og viti menn, þar voru þau. Þarna var Valdimar einmitt síðast að taka til í fyrradag. Ég er bara ekki manneskja sem er alltaf að tína e-u og hef yfirleitt nokkuð góða stjórn á því hvar hlutirnir eru. Þannig að ég er bara mjög sátt við að þeir feðgar hafi átt sinn þátt í vandamálum mínum á þessu sviði undanfarið.

Á mánudaginn fór ég í annað skiptið til næringarfræðings í tengslum við rannsóknina.  Það fór nú bara betur en á horfðist. Hafði þyngst um hálft kíló. En ég hafði reiknað með að hafa þyngst um eitt og hálft til tvö eftir jólasukkið. Það var við báðar mjög ánægðar með. (Svo er krílið á þessum tímapunkti einmitt tæpt álft kíló eða svo). Svo var ég nú viðbúin skömmum frá henni varðandi mataræðið, enda hef ég nú ekki mikið tekið það í gegn. Hins vegar er ég aftur byrjuð að borða e-ð grænmeti og salat og þetta var hún svoleiðis alveg hreint ánægð með. Svona viðbrögð koma neikvæðum og svartsýnum manneskjum eins og mér bara í opna skjöldu. Kannski yrði lífið í alvöru auðveldara ef maður væri jákvæður og bjartsýnn.

Í gær var það svo hin vikulega leikfimi sem að þessu sinni var alveg hrikalega erfið. Ég var eins rauð í framan eins og þegar verst er. Ósanngjarnt að verða svona og aðrir varla svitna, hvað þá roðna. Mér leið þó ágætlega á eftir og góð tilfinning að hafa erfiðað e-ð líkamlega. En ég ætlaði nú ekki að komast upp tröppurnar úr búningsklefanum og varla að geta hjólað til baka til Þóreyjar og Atla að sækja HG. Og gvuðminngóður tröppurnar upp í íbúðina þeirra eru hræðilegar! Ég veit ekki hvað ég á eftir að meika að fara í heimsókn til þeirra oft í viðbót. Vonandi fer að vora fljótt svo við getum bara hist niðri í garðinum hjá þeim.

Á þriðjudaginn er 20 vikna sónarinn, eða eins og hann er svo smekklega kallaður hér, vansköpunarsónar (misdannelsesscanning). Og það er sko allt í lagi mín vegna, heldur manni niðri á jörðinni. En ég ætla nú samt að leifa mér að hlakka pínulítið til líka. Við HG vorum e-ð að ræða þetta í gær og í samtalinu sagði ég að við myndum svo annaðhvort fá stelpu eða strák. Þá sagði hann hinn eðlilegasti „eða skrímsli“. Hver veit.

Fullt hús matar

janúar 13, 2008

Í fyrsta skipti á ævinni borðaði HG heilt egg. Undanfarið hefur hann nefnilega sýnt eggjum meiri áhuga en við höfum ekkert verið að halda þeim að honum. Fyrir tæpum tveimur árum fengum við að vita að ofnæmið hans væri að hverfa þannig að þetta ætti að vera óhætt. Hann sýnir a.m.k. engin viðbrögð, ekki bólgnar varir eða útbrot. Og þetta var að hætti móðurfjölskyldunnar – með tómatsósu.

Fórum í gær til Þóreyjar og co. HG fékk þessar fínu bækur, hákarlafræðslubók með þrívíddargleraugum og Matreiðslubók Shreks. Mér líst rosa vel á það. Held að svona barnamatreiðslubækur séu akkurat e-ð fyrir mig. E-ð ofureinfalt og gott. Steiktir ormar og skordýr hljóma t.d. mjög vel, terta með óeitruðum eplum og mýrarjurtir og flugnalirfur.