Archive for desember, 2007

Jólin

desember 27, 2007

Eins og vera ber eru jólin búin að vera ljúf og við búin að borða mikið. Fengum prýðilegar jólagjafir, fallegar og nýtilegar. Ég fékk t.d. fallega silfureyrnalokka frá Valdimari. Svo fékk ég mjög skemmtilega gjöf frá Dagbjörtu. Það var myndin Son in Law sem við vinkonurnar horfðum á mörgum sinnum á unglingsárum. Við kunnum hana eiginlega utanað. Ég á reyndar eftir að horfa á hana núna og á eftir að kanna hvort ég sé jafn móttækileg fyrir snilldinni núna. Ástæðan fyrir þessari gjöf var sem sagt sú að Dagbjört var að bæta fyrir gamlar syndir þegar hún tók yfir myndina þegar hún var 12 ára. Hún gerði það vissulega óviljandi en ég skammaði hana samt duglega fyrir það á sínum tíma. Greinilegt að hún hefur samt ennþá haft pínu samviskubit yfir þessu. Þetta er eitt af fáum skiptum sem ég hef verið mjög reið við Dagbjörtu (sem ég man eftir).

Í dag fórum við í síðari nuddtímann okkar hjá Helgu Dröfn sem var í boði Dagbjartar. Það var auðvitað algjör draumur eins og við var að búast. Seinni partinn og í kvöld er svo búið að vera heimsókna maraþon. Heimsóttum Hjörvar frænda minn í dag og í kvöld á meðan Valdimar og Helgi Gnýr heimsóttu Bigga og fjölsk í Hafnarfirði fór ég að hitta Roald, Nínu og Agnar hjá Roaldi og Sissó í ótrúlega flotta húsinu þeirra á Grettisgötunni. Það var alveg frábært að hitta þau. Við sýndum alveg ótrúlegar framfarir og þroskamerki því við minntumst varla nokkuð á MR og spjölluðum um allt milli himins og jarðar. Synd að Valdimar hafi misst af því. Á morgun stendur svo til að hitta Guðrúnu Jóns. Þá förum við nú að vera búin að standa okkur bara nokkuð vel. Maður getur víst aldrei hitt alveg ALLA eins og maður helst vildi. En gaman að reyna að hitta sem flesta.

Og þar sem ég hef undanfarin ár lagt mikinn metnað í að senda jólakort og jafnvel föndra þau sjálf er ég alveg miður mín að hafa ekki haft tíma og getu í það þessi jólin. Ég óska samt öllum gleðilegrar hátíðar og lofa að koma tvíelfd inn með jólakortin að ári. Ég elska nefnilega sjálf að fá jólakort – öll jólakort! (frá fólki, ekki fyrirtækjum).

Gleðipilla

desember 20, 2007

Það var frábært að hitta stelpurnar í gær. Eftir frekar dapra andlega tíð hjá mér undanfarið sem heur haldist mjög í hendur við líkamlega vanlíðan var bara yndislegt að hitta þær í gær. Þær eru bara svo skemmtilegar og fyndnar og upplífgandi. Finnst e-m það ósanngjörn krafa að e-r hluti vinanna taki sig til og flytji líka til DK.

Í kvöld fer ég í klippingu til Sigrúnar. Ég þarf svo á því að halda enda hef ég ekki farið í klippingu í ár. Ég er auðvitað smart eftir því. Fyrir klippinguna ætla Steinunn og Stefán að bjóða okkur að borða í snemmbúinn kvöldmat. Það verður nú e-r sprengur en samt gaman að sjá þau aðeins. Við verðum bara að pranga okkur inn á þau aftur við tækifæri. Ég er nú ekki kona sem sér inn í framtíðina en ég veit að ég mun ekki fá nóg af þeim milli rúmlega fimm og tæplega sjö í dag.

Á þessum stutta tíma frá því við komum er ég tvisvar búin að gera tilhlaup í að kaupa jólapappír í Máli og menningu. Svona rúlla með gull eða silfurpappír og með miklu á, dugar í fleiri en tvær gjafir. Ég hef gugnað í bæði skiptin þar sem rúllan kostar tæplega 1900 krónur. Ég sé soldið eftir að hafa ekki keypt sama pappírinn í Magasín fyrir viku á 50 DKK. Ég hallast núna mest að maskínupappír og hef heyrt af honum í Hagkaup. Ætla að kanna það mál. Mér finnst maskínupappír nefnilega alveg gullfallegur þó hann sé ekki gulllitaður.

Nudd

desember 19, 2007

Þá erum við hjónin búin að fá alveg yndislegt nudd hjá henni Helgu Dröfn heilsunuddara. Okkur veitti sko ekkert af því og yndislegt til þess að hugsa að við förum aftur til hennar þann 27. þannig að þetta var ekki endanlegt nudd í bili.

Í gær fórum við aðeins í bæinn í jólagjafaleiðangur en við vissum bara ekkert hvað við áttum að kaupa þannig að það gekk ekki vel þannig. En yndislegt að koma í bæinn. Gott veður og því miður fyrir miðbæinn ekki of margt fólk. Enduðum svo á því að kíkja á Öggu í blómabúðinni. Ég sakna þess svo að geta ekki misst mig í að kaupa jólablóm og skreytingar hjá henni til að skreyta mitt eigið heimili. En það kemur e-n tíman að því aftur. Skiluðum svo Dagbjörtu heim og þegar við komum á Hagamelinn var HG að leika við ömmu sína. Hann fór svo í háttinn með henni, fékk lesnar tvær bækur og sögu af litlu músinni. Algjör lúxus hjá honum og fyrir okkur að skilja hann eftir í svona góðu yfirlæti. Í dag er hann svo að fara að leika við Jóhann frænda sinn og svo er stefnan að leika við Nóa á föstudaginn. Á meðan fáum við smá búðatíma.

Nokkrar bekkjarsystur ætla í dag að hittast á 10 dropum. Hlakka svo til að hitta þær. Ein þeirra á kaffihúsið og önnur þeirra var að gefa út bók. Ein þeirra fangavörður og önnur snillingur. Veit ekki hvort það koma(st) fleiri.

Komin

desember 18, 2007

Við erum mætt á Hagamelinn. Vöknuðum eldsnemma í gærmorgun til að ná lestinni – sem við réttnáðum og svo gekk ferðalagið bara glimrandi. Vissulega eitt smá vesen þegar stigið var um borð í flugvélina. Við vorum auðvitað búin að panta okkar sæti og borga sérstaklega fyrir þau eins og Icel. Express tíðkar. Nei þá bara var e-ð sem klikkaði í tékkinn og fólk átti bara að setjast e-s staðar.

Pabbi kom að sækja okkur og sagði að það væri bara logn úti hjá flugstöðinni. Það var nú ekki alveg nákvæmt. Það var skítaveður með tilheyrandi roki og hver regndropi boraði sér gegnum gallabuxurnar. En það var nú bara hressandi.

Mamma og pabbi áttu þrjátíu ára brúðkaupsafmæli í gær. Til hamingju! Þau buðu því öllum afkomendum út að borða á Ask í gærkvöldi. Það var alveg hreint ágætt. Ég var allavega sátt við minn lax. Borðaði eiginlega allt of mikið. Meiri sveigjanleiki hefði nú samt ekki drepið. Barnamatseðillinn samanstóð auðvitað af alls konar óhollum og óspennandi mat (eins og alls staðar), þannig að við spurðum hvort væri ekki hægt að kaupa hálfan skammt af matseðlinum. Nei það var bara ekki hægt. Hann gat þó fengið soðinn fisk í stað djúpsteikts. Svo hætti Valdimar við að fá sér það sama og ég. Valdimar heyrði svo til kokkanna að þeir voru að fussa og sveia yfir bommunni „það á bara að smakka allan matseðilinn“. En það var að minnsta kosti góð stemmning hjá okkur. Við kíktum svo í Sörlaskjólið þar sem veislan hélt áfram, smákökur, ostar og súkkulaðirúsínur sem HG minnti ömmu sína á „ert þú ekki alltaf að gefa súkkulaðirúsínur?“. Hún var auðvitað ekki sein að finna þær til. Held ég hafi ekki borðað svona mikið í margar vikur.

Svo var bara búið að skreyta uppi í risherbergi. Voða notalegt. Sofnuðum sem sagt seint út frá seríuljósunum í litla glugganum. Voða notalegt. Í dag er enginn sérstök dagskrá en við munum örugglega kíkja í bæinn og jafnvel kaupa e-ð af jólagjöfum.

…ég hef aldrei séð annan eins

desember 16, 2007

ísskáp!

Síðastliðinn miðvikudag fengum við nýjan ísskáp þar sem farið var að leka e-ð ógeð neðan úr þeim gamla. Hann kældi þó og virkaði þannig séð. Það sama er ekki hægt að segja um þann splunkunýja. Hann keyrir vissulega en kælir ekki vitund. Það er bara þægilega hlýtt inni í honum, og frystihólfinu líka. Og þar sem við erum að fara á morgun og það var vissulega laugardagur í gær, er ekkert hægt að gera í þessu fyrr en eftir áramót. Í gær datt okkur svo loksins í hug að setja þann litla mat sem við þorum að eiga út í glugga og það virkar svona líka vel. Ég fékk alveg ískalda undanrennu út á seríósið mitt í morgun í fyrsta skipti í þrjá daga. Það er gaman.

Á meðan Valdimar er búin að hamast og hamast að mála er ég búin að fara í jólagjafaleiðangra, keypti 9 jóalgjafir í gær og 8 í dag. Þá er líklega rúmur þriðjungur eftir og það flestar erfiðu gjafirnar. Þær verða keyptar í íslenskum búðum. Helgi Gnýr fór með mér í dag og hjálpaði mér að velja jólagjafir handa frændsystkynum sínum. Þannig að það er þá bara við hann að sakast ef e-ð fellur ekki í kramið.

Það er alveg brunagaddur úti núna þó það sé bara ein-tvær gráður undir frostmarki. Það er þessi hrikalegi raki sem gerir það að verkum að maður bara getur eiginlega ekki klætt kuldann af sér. Við vorum þó ekkert mjög illa haldin eftir bæjarferðina. Valdimar er núna í julefrokost í vinnunni og kemur líklega ekki heim fyrr en seint í kvöld. Á meðan er á stefnuskránni að halda áfram að púsla fataskápnum okkar saman og raða e-u inn í hann til að grynnka á draslinu. Taka pínulítið til – til að grynnka á draslinu og pakka. Við þurfum að ná lest korter í átta í fyrramálið þannig að við þurfum að vakna snemma og vera klár. Reikna ekki með að þetta verði eins og síðast, klár með farangurinn fyrir 10 kvöldið áður. Það er auðvitað bara geðveiki.

End of an era

desember 15, 2007

Í gærmorgun skilaði ég íbúðinni á Jagtvej. Það gekk glimrandi. Var búin að svitna við að gera hana hreina hátt og lágt alla vikuna. Ég var ein í því þar sem Valdimar var að vinna mikið alla vikuna. Hann var þó búin að taka öll loft, alla efri skápa og lítið eitt annað þannig að það var nú búið að forvinna ágætlega fyrir mig. En í gær var ég ÞREYTT. Fór líka að stússast í nýrri umsókn um húsaleigubætur sótti HG snemma og fór með hann í klippingu til hans Dogans sem karlpeningur fjölskyldunnar er svo hrifin af – sem klippara. Enda koma þeir allir HG, Valdimar og pabbi alltaf svo glimrandi fínir frá honum. Held að pabbi hafi meira að segja safnað hári áður en hann kom síðast.

En þó ég hafi verið uppgefin í gær eftir vikuna var Valdimar ekkert á því að slaka á. Hann fór að þrífa stofuna og herbergi HG svo hann gæti byrjað að mála. Hann fékk e-ð voða gott efni til að þrífa svona drullu og svo fékk hann e-n sérstakan grunn undir málninguna sem á að loka tjörurestarnar sem ekki nást vel inni.

Ég er frekar mikil anti-reykingakona og skil ekki hvernig fólk getur staðfastlega reykt endalaust og hvað þá reykt inni hjá sér. En hver hefur sinn djöful að draga vissulega og ég er nú ekki svo háheilög að ég hafi ekki einn slíkan. Hér er sýnishorn af vatninu eftir að Valdimar þreif loftið og einn vegg inni hjá HG.

Drulla

Væl

desember 10, 2007

Hreingerningin á allri íbúðinni varð sem sagt bara að þurrka af listum og gereftum. Ég er búin að hringja út og suður í þessu íbúðafélagi til að fá það á hreint hvernig á að skila af sér íbúðum. Hvort brúnir veggir og kóngulóarvefir séu bara innifaldir í verðinu þegar maður tekur yfir. Ég er svoleiðis að gjörsamlega að brjálast á þessu og er hreinlega búin að grenja oft í dag og halda í mér rest. Núna er ég bara með svona „mig langar heim“ tilfinningu og bara nenni þessu ekki. Næstu dagar fara í að gera hreina íbúðina á Jagtvej sem við erum að skila á föstudagsmorgun. Og ef það endar með því að við þurfum að þrífa tjörudrulluna hérna af veggjum og loftum þá tekur það líklega tvo þrjá daga. Og þá höfum við svona tæplega núna fyrir jólin þannig að  þá verður að taka af lestrartímanum mínum í janúar. Ég held ég fái taugaáfall.

 Í morgun vaknaði ég eldsnemma til að mæta fastandi í sykurþolspróf. Beið í 40 mínútur og ekkert gerðist. Þá var ég bara ekkert listanum hennar í dag. Þannig að mér var bara snúið til baka.

 Ég er ekki búin að kaupa eina einustu jólagjöf, finn ekki listann yfir þyggjendur og komst ekkert á yndislega jólamarkaðinn í gamla bænum.

Og ég veit ekkert hvað ég á að hafa í kvöldmatinn svo barnið fái nú e-ð almennilegt að borða.

Það getur ekki annað en skánað upp úr þessu. Eða… lengi getur vont versnað. Fer eftir því hvernig hausinn á manni virkar.

Reddingar

desember 8, 2007

Dagurinn í dag fór í að ná í sendibíl, fara í Bilka (og kaupa ekkert fyrir mikið eins og í Nýkaup í den). Keyptum fataskáp í Ikea (HG algjör hetja að komast í gegnum einn og hálfan tíma þar, gott hann var ekki með í Bilka). Sóttum frystikistu sem er stór (og hægt að setja í samband í geymslunni sem mér þóttu gleðitíðindi). Fórum á McDonalds sem ég get varla borðað lengur. Heim að horfa á Pyrus sem prinsinn má ekki missa af og fórum svo í íbúðina og settum upp ljós (eða Valdimar gerði það) og þrifum svefnherbergið.

Fundum post-it miða í íbúðinni þar sem á stóð hvað átti að gera áður en hún væri klár fyrir okkur. Þar stóð m.a. Nikotin rengøring. Enda eru stofurnar gjörsamlega viðbjóðslegar eftir líklega fimmtán ára reykingar þarna. Það verður samt ekki gert fyrr en á mánudaginn þannig að við verðum að raða hlutunum í íbúðina eins og skátar í útilegu að skilja við tjaldið sitt. Það er okkar lukka að það var nýlega vatnsskaði þannig að svefnherbergið er nýmálað með góðu parketi þannig að við gátum bara rennt yfir alla fleti með moppu og búum þar á næstunni. Svei mér þá það er eins og við höfum verið að byggja á 8. áratugnum. Flytja inn í eitt herbergi og sjá svo til.

Farin að leggja mig.

Svo danskt

desember 6, 2007

Mér finnst þessi lína úr þessu danska jólalagi svo ótrúlega dönsk „Julen varer længe, koster mange penge.“

Í dag

desember 6, 2007

fór ég í annað sinn í leikfimi fyrir of þungar konur í mínu ástandi sem er hluti af rannsókn sem mér var boðið að vera með í. Það þýðir að ég á að mæta einu sinni í viku í þennan lokaða hóp og fylgja rútínunni þar, mæta fjórum sinnum til næringarfræðings, fara þrisvar í sykurþolspróf og tvisvar í sónar þar sem stærð krílisins er mæld. Það er sem sagt verið að athuga hvort svona meðferð getur haft jákvæð áhrif með tilliti til meðgöngusykursýki og -eitrunar (kem því bara svei mér þá ekki fyrir mig hvort það er y í eitur/eytur) og fæðingarinnar sjálfrar. Svo er líka markmiðið að þessi hópur þyngist ekki meira en um 5 kíló. (Ég sem bætti á mig 5 kílóum bara á mánuði á Íslandi í sumar). Ég varð allavega mjög fegin að ég lenti í meðferðarhópnum en ekki í kontrólhópnum (sem ég get núna ómögulega munað hvernig er á Íslensku). Kontrólhópurinn fær nefnilega bara þetta leiðinlega. Mér veitir nefnilega ekkert af því að hreyfa mig og ekki spillir fyrir að hitta e-ð fólk þó við eigum ekkert sameiginlegt annað en óléttuna. En það á nú kannski eftir að koma í ljós.

Á meðan ég var að svitna var prinsinn í góðu yfirlæti hjá Þóreyju og co. Þau eru svo að fara að hjálpa okkur á laugardaginn og jafnvel passa aftur næsta fimmtudag. Hvar værum við stödd án þeirra?

Svo styttist óðum í að við komum heim í jólafríið. Komum 17. des og við hlökkum alveg hrikalega mikið til. Ég fer meira að segja í klippingu til Sigrúnar fyrir jólin og svo tvisvar í nudd til Helgu Drafnar. Hvað getur maður beðið um meira? Jú að hitta vinina. Það er nóg laust pláss í dagbókinni:)