Sumarfrí:)

júní 22, 2009

Jæja þá erum við mætt. Þetta var langt ferðalag á laugardaginn. Heiðar Mar svaf ekkert í lestinni, í flugvélinni eða bílnum á leiðinni frá Keflavík, heldur lagði sig aðein á báðum flugvöllunum, í innritun og Kastrup og eftir lendingu í Keflavík. Hann er frekar aktívur piltur þannig að það passaði ekki alveg inn í planið hjá honum að sitja hjá okkur á leiðinni. Hann hafði hins vegar ekkert val þannig að þetta var nú ansi strembið á köflum. Sjö ára stelpa kunningjafólks okkar var samferða þannig að Helgi Gnýr og hún höfðu soldinn félagsskap af hvoru öðru og það var nú lítið bras á þeim.

Erum svo bara búin að hafa það  rólegt síðan að mestu. HG fór í gær að leika við frænda sinn og ég hljóp þaðan, úr Hólmgarðinum og hingað á Hagamelinn. Ég byrjaði nú ekkert að hlaupa samt fyrr en ég var komin niður í Fossvoginn. Þaðan voru ca 6,4 km. Var nú soldið þreytt þegar ég kom á leiðarenda en voða glöð að hafa drifið mig. Valdimar fór svo í morgun að hlaupa eftir sínu prógrammi.

Vikuna áður en við flugum höfðum við nóg að gera. HG fór að keppa á laugardeginum og stóð sig svona líka vel. Varð í þriðja sæti í sínum flokki og fannst honum nú ekki ónýtt að fá medalíu. Við vorum búin að leigja bíl fyrir helgina þannig að við drifum okkur í Legoland  á sunnudeginum. Það var bara fínt og HG skemmti sér vel. Það væri samt synd að segja að þetta hafi verið ferð til fjár. Mikið djöfulli er allt dýrt þarna.

Á miðvikudaginn héldum við svo í fyrsta skipti upp á 17. júní frá því við fluttum. Við hjóluðum inn í Fruens Bøge (aðeins lengra en dýragarðurinn fyrir staðkunnuga) og borðuðum íslenskt nammi með Norðfirðingum, mjög ljúft.

Valdimar og HG fóru í sund í dag. Þá sá HG krakka á sundnámskeiði og leist bara vel á og sýndist bara vera fjör hjá þeim svo hann er ekki jafn hræddur við þetta og ekki eins reiður við mömmu sína fyrir að hafa skráð sig á sundnámskeið að sér forspurðum.

Dagbjört er búin að bjóða okkur með í sjósund núna kl. 5. Ef e-ð þá læt ég mér nægja að fylgjast með. Ég er alls ekki nógu mikill nagli til að skella mér í sjóinn. Held ég láti Vesturbæjarlaugina duga.

Kaldur kalkúnn

júní 10, 2009

Síðan síðast er ég aðallega búin að vinna mikið og passa upp á sjúklinga með hina aðskiljanlegustu sjúkdóma. Verð að játa að yfirseturnar eru helvíti lengi að líða stundum og tíminn stendur jafnvel í stað einstaka sinnum. En katjíng, það koma smá peningar í kassann og það er gaman.

Litli stubbur náði sér í e-n óþverra og fékk bullandi hita í nokkra daga en er nú orðin betri en nýr. Hann er orðin ansi fær í göngunni og gengur núna um allt mjög einbeittur. Því fylgir svo að hann hrynur á hausinn nokkrum sinnum á dag og er með fallega marbletti á enninu því til sönnunar. Hann fékk tilboð um pláss á vöggustofu sem hann byrjar á eftir að við komum heim í ágúst.

Svo skyndilega í gærkvöldi var tími kominn til að taka brjóstið af honum. Ég var soldið pirruð á því að hann vaknaði þrisvar milli 10:30 og 00:00 bara til að hafa það huggulegt. Þannig að ég fór og lagði mig með honum og ætlaði bara að láta hann sofna  við hliðina á mér án þess að tyggja mig. Honum leist nú ekkert sérstaklega vel á það og grét lengi. Svo var staðan bara þannig að ég gat ekkert bara allt í einu leyft honum að drekka þannig að stundin var bara runnin upp. Tóku þá við öskur í meira enn klukkutíma. Mestu grátur/öskur sem ég hef upplifað frá mínum börnum. Svo var hann að biðja um nokkrum sinnum í nótt og svo í dag. Nú er bara að sjá hvað hann ætlar að taka langan tíma í að venjast þessu. Mér verður alveg illt í hjartanu við þetta. En þráin eftir smá kvöldfriði og nætursvefni yfvinnur það að mestu.

Á föstudaginn verður hann svo eins árs. Við ætlum nú ekki að halda neina afmælisveislu. Gerum það KANNSKI á Íslandi. Ætlum bara að fá Þóreyju og co í föstudagspizzu og litla afmælisköku.

Stóri strákurinn minn fékk nýtt belti í karateinu og ég sé núna síðustu vikurnar töluverðar framfarir hjá honum þar. Svo skráði hann sig í keppni á laugardaginn þar sem hann gerir „form“ fyrir dómara. Sjáum nú til hvernig það gengur. Hann dauðsér eftir að hafa skráð sig. Það eru tvær og hálf vika eftir af skólanum hjá honum en hann fær frí í þeirri síðustu. Það er komið mikið sumar í fólk þó veðrið fylgi ekki með og starfið í skólanum eftir því. Hann fer líka meira út að leika og að leika við vin sinn hérna í nágrenninu þegar veðrið er orðið skárra. Í gær var líka einn úr hinum 0 bekknum í heimsókn hjá honum. Eins og ég er nú glöð að vera lengi á Íslandi í sumar þá er ég pínu smeik við að hann missi þá tengslin sem hann er búin að vera að byggja upp við félagana í skólanum.

Já það held ég nú.

Jammí

maí 15, 2009

Var að baka hrottalega góðar muffins. Ein sem ég kynntist í möðregrúppen ætlar að kíkja í morgunmat í fyrramálið og þá er nú alveg nauðsynlegt að hafa svona eftirmorgunmat.

Á laugardaginn kláraði ég Medikom námskeiðið. Það gekk að mestu vel, fékk ekki nema 4 h já venjulega sjúklingnum í verklegu. Ég var nú alveg sátt við einkunnina þegar við ræddum um hana ég og prófdómarinn en svo eftirá, eftir að hafa heyrt gengi hinna miðað við „afköst“ þá fannst mér hún helvíti hörð. Hef hana grunaða um að hafa slakað á eftir því sem leið á daginn. Ég var nefnilega fyrst inn. EN ég er ekki týpan sem vælir í kennurum yfir lélegum einkunnum. Væli bara í öðrum. En svo fékk ég 10 hjá geðsjúklingnum og 12 í skriflega (Já þetta danska einkunnakerfi er „ekki til að skilja“). En námskeiðið hefur þegar borgað sig (var reyndar ókeypis) því nú þora þau að senda mig inn á sjúkrahúsvaktir og hef ég tekið þrjár í þessari viku og bara gengið vel. Vona að ég haldi bara áfram að fá nóg af vöktum svo við getum nú bætt gjaldeyrisstöðu föðurlandsins í sumar.

Seinnipartinn á morgun erum við að fara í bátsferð með bekknum hans HG með ánni inn í Fruens Bøge sem er skógur hérna ekki svo langt frá. Vona bara að það verði skikkanlegt veður og barnið njóti sín.

Staðan

maí 7, 2009

Er búin að vera á námskeiðinu undanfarna viku. Það margt nýtt sem ég læri þarna, t.d. var farið gróflega í persónuleikaraskanir í tengslum við geðsviðið. Eftir þá yfirferð var ég sannfærð um að ca 80% fullorðins fólks í kringum mig sé með persónuleikaröskun af einhverju tagi, þar með talin ég sjálf.
Í dag er svo síðasti dagur námskeiðsins og svo próf á laugardaginn. Í dag erum við að fara að læra að setja upp nál. Mér finnst það pínu rosalegt. Finnst það vera e-ð sem hjúkkur eða þaðan af framhaldsmenntaðra fólk gerir. Spennandi að vita hvern ég fæ að stinga í dag. Ég verð svo eflaust sjálf stungin á báðum handabökum því ég er ekkert banginn við nálar. Kannski verð ég það eftir daginn í dag.

Okkur hjónunum fer fram í hlaupunum og Heiðari Mar í labbinu. Tekur allt að 11 skref í einu. Helgi Gnýr á ekki í neinum vandræðum með hlaup og gang en ég væri alveg til í að senda hann á sundnámskeið ef það er nokkur möguleiki í sumar. Mér finnst alveg komin tími til að hann læri e-r undirstöðuatriði þar.

Engar stórfréttir

apríl 29, 2009

Það eru engar stórfréttir á staðnum. Við erum búin að venjast því að vera ein aftur eftir bröttför mæðgnanna um daginn. Það hefur verið yndislegt vorveður undanfarnar vikur. Bara einn rigningardagur og þá var ég akkúrat kölluð út í vinnu. Er sem sagt á skrá hjá afleysingaskrifstofu sem dekkar forföll í heimaþjónustu og á sjúkrahúsum. Það er bara fínt og hentar mér vel núna því þá getum við tekið langt sumarfrí á Íslandi í sumar. En já, rigningardagurinn. Ég gleymdi sem sagt regngallanum og var hundblaut hjólandi á milli hverfa langt í burtu. En mikið var nú gott að koma heim. Það er annars ekkert brjálað að gera hjá mér í þessari vinnu en fæ vonandi meira að gera þegar ég er búin að taka námskeiðið þeirra núna frá 1.-9. maí.

Skólinn hefur alveg setið á hakanum. Ég fresta því að klára hann þar til ég hef orku í það. Við mæðgin erum enn í því að vakna endalaust á nóttunni og ég bara er hálf manneskja meðan á því stendur. Þetta er auðvitað bara sjálfskaparvíti. En ég er ekki viss um að ég þrauki árið í brjóstagjöfinni. Heiðar Mar er mjög skynsamur ungur maður en ég held að hann eigi samt ekki eftir að skilja það (héðan í frá, orðinn 10 mánaða) að það megi bara drekka á dagin en ekki á nóttunni. Þannig að ég reikna með að skera bara alveg á þetta þegar þar að kemur og ég treysti mér til. Mér finnst það samt alveg agalegt að ætla að guggna svona á brjóstagjöfinni eins mikill brjóstagjafafasisti og ég er nú. Brjóstagjöfinn er bara að taka miklu meira á mig núna en með Helga Gný, en hann var ég með á brjósti í 22 mánuði og fannst það eiginlega ekkert mál þá.

Merkilegt nokk þá hef ég haldið mig við að fara út að hlaupa annan hvern dag. Meira að segja langaði mig út í gær líka en ákvað samt að missa mig nú ekki alveg. Það getur samt vel verið að ég reyni bara að fara út alla þá morgna sem ég kemst. Ætla að melta þetta aðeins. Svo skellti Valdimar sér út í morgun líka. Sjáum hvað verður úr þessu.

Á föstudaginn voru núll bekkirnir með upplestur í skólanum. Þau voru búin að vera með þema um tröll og voru öll búin að skrifa litla tröllasögu og svo lásu þau upp hvert af öðru. Helgi Gnýr stóð sig eins og hetja. Las hátt og skýrt (best, auðvitað, að mati foreldranna) og þurfti enga hjálp sem mörg börnin annars þurftu (sem er auðvitað líka eðlilegt fyrir svona smáfólk). Hann fékk líka svo góða umsögn í foreldraviðtali fyrir mánuði síðan. Hann stendur sig mjög vel í skólanum í öllu þessu faglega og þetta félagslega er allt að smella líka hjá honum. Hann er einn af þeim fyrstu í bekknum að læra að lesa sem mér finnst bara mjög flott því hann er auðvitað að basla með tvö tungumál og er fæddur seint á árinu.

Heiðar Mar er algjör gaur. Rífst bara á móti þegar honum er bannað e-ð og veit alveg nákvæmlega hvað hann vill. Hann er núna í því að æfa sig að taka skref og tekur núna iðulega 3-4 skref í einu. Svo segir hann bara nei stanslaust og er að myndast við að segja mamma og jafnvel pabbi við viðeigandi aðstæður. Hann er búinn að babbla mammammammamma í marga mánuði en núna finnst mér þetta vera soldið almennilega markvisst hjá honum. Hann verður því væntanlega orðinn ansi vel hreyfanlegur þegar við komum heim í sumarfrí.

Já og kosningarnar… Ég er auðvitað sátt. Svo er bara að sjá hvað verður úr þessu hjá þeim.

Fótur fluttur

apríl 18, 2009

Ungi maðurinn, sá rúmlega 10 mánaða, hefur verið að æfa sig undanfarnar tvær vikur í því að standa án stuðnings og áðan (ég myndi ekki ganga svo langt að segja að hann hafi tekið skref) flutti hann fótinn.  …hálftíma síðar: Hann gerði þetta tvisvar aftur.

Á sama tíma hefur sá eldri verið að æfa sig í nýja Nintendo tölvuspilinu sínu. Mér finnst hann bara nokkuð klár í þessu miðað við ákaflega litla reynslu af tölvuleikjum. Svo finnst mér þetta heldur ekkert leiðinlegt. Sjálf átti ég bara Donkey Kong JR þannig að þetta er nú soldið stórt stökk fyrir mig.

Ég fór í morgun með Dagbjörtu í stöðvaþjálfun hjá vinkonu hennar sem er með tíma aðra hverja viku á sjúkrahúsinu. Það var rosalegt! En samt gaman. Er líka búin að fara að hlaupa tvisvar í vikunni með Dagbjörtu og gera æfingar. Væri bara mest til í að hafa hana sem einkaþjálfara. Ég hef akkúrat engan sjálfsaga til að drífa mig út sjálf.

Svo er bara að njóta síðasta kvöldsins með Dagbjörtu í bili. Helgi Gnýr notar síðasta tækifærið vel og hún fær að bursta og lesa fyrir svefninn. Kannski við hin ættum að gera það bara líka, Dagbjört er náttúrulega þekkt fyrir góða tannhirðu:)

Yndislegt

apríl 15, 2009

vorveður hérna þessa dagana og mér sýnist það bara ætla að halda áfram. Mamma fór í gær þannig að HG þarf að bíða lengi eftir annari sögu af „litlu músinni“. HG og Dagbjört eru að spóka sig í dýragarðinum núna og við hin höngum heima. Ég er e-ð að reyna að taka til en það gengur e-ð hægt þegar maður missir sig í tölvunni stanslaust. Það er bara alveg magnað hvað það hleðst stanslaust upp alls konar pappír og dótarí hjá okkur sem ekki er hægt að henda heldur þarf að finna e-n góðan stað fyrir. Vona að ég sé ekki ein með þetta vandamál.

Gleðilega páska

apríl 12, 2009

Við höfum það mjög huggulegt þessa dagana. Mamma er í heimsókn og hefur verið í viku og Dagbjört síðan á fimmtudagskvöld. Það er bara yndislegt að hafa þær.

Í dag prófuðum við þær sem barnapíur og fórum í bíó með Helga Gný á Monsters vs Aliens. Við HG vorum að fara í fyrsta skipti á mynd í þrívídd og við urðum ekki fyrir vonbrigðum. Það var líka gaman að geta gert e-ð með HG einum svona einu sinni. Og barnapíunum gekk vel. Heiðar Mar öskraði í nokkrar sekúndur þegar við fórum og svo var það búið. Svo verður önnur pössunaræfing tekin á morgun.

Vorið

apríl 4, 2009

Ég ætla að gerast svo djörf að segja að vorið sé komið hér í Danmörku. Það er yndislegt veður úti og ég hef þegar hjólað á peysunni (með vetrarúlpuna í körfu). Var að koma úr vinnunni af 7-10 vakt (reyndar var ég lengur af óviðráðanlegum orsökum) og hér á bæ erum við að fara að blása úr eggjum.

Allt fínt

mars 25, 2009

Það er alls ekkert slæmur dagur lengur. Og ég vil heldur ekki taka svo djúpt í árinni að ég sé hætt að blogga en þetta hefur allavega verið löng pása. Þessi fésbók er tekur soldið mikið af nenninu. Aldrei að vita nema fréttir af fjölskyldunni birtist hér á næstunni.